Hagar sér vel í fangelsinu

Salah Abdeslam
Salah Abdeslam AFP

Salah Abdeslam sem er grunaður um að hafa tekið þátt í hryðjuverkunum í París í nóvember er sagður haga sér vel í fangelsinu sem hann var fluttur í frá Belgíu í síðustu viku. Verðir í Fleury-Merogis fangelsinu, sem er stærsta fangelsi Evrópu, segja Abdeslam haga sér vel en honum er þar haldið í einangrun.

Forstjóri fangelsisins Nadine Picquet sagði hann hafa verið „þægilegan í samskiptum“ og ekki hafa „valdið vandræðum“.

„Eins og staðan er núna sefur hann mikið. Hann hvílir sig. Hann les bækur,“ sagði Picquet.

Abdeslam er talinn hafa spilað lykilhlutverk bæði í árásunum í París og í að flytja árásarmennina á milli staða. Hann er franskur ríkisborgari og 26 ára gamall. Hann var handtekinn 18. mars í Brussel eftir að hafa verið á flótta í fjóra mánuði.

Hann kemur næst fram fyrir dómara 20. maí.

Í klefa hans er stöðugt myndavélaeftirlit og er öllum samliggjandi klefum haldið tómum af öryggisástæðum. Ríki íslams lýsti yfir ábyrgð á árásunum en 130 létu lífið og tugir særðust.

Abdeslam er talinn vera eini árásarmaðurinn sem er enn á lífi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert