Skírlífsboðun virkaði ekki gegn HIV

Alnæmissmituð kona í Suður-Súdan. Myndin er úr safni og tengist …
Alnæmissmituð kona í Suður-Súdan. Myndin er úr safni og tengist efni fréttarinnar ekki með beinum hætti. AFP

Bandarísk stjórnvöld hafa kastað 1,4 milljörðum dollara á glæ í herferð til að boða skírlífi sem vörn gegn HIV í fjórtán Afríkuríkjum undanfarin fimmtán ár. Ný rannsókn leiðir í ljós að herferðin hafði engin marktæk áhrif á kynhegðun fólks. George W. Bush, þáverandi forseti, hóf herferðina.

Árið 2003 var skírlífi teflt fram sem lausn á alnæmisfaraldrinum í Afríku í neyðaráætlun Bandaríkjaforseta. Ástæðan var þrýstingur frá kristnum íhaldsmönnum. Skilyrtu þingmenn samþykki sitt fyrir neyðaráætluninni því að þriðjungur þess fjár sem verja átti til forvarna yrði sett í að boða skírlífi fyrir hjónaband. Síðan þá hafa bandarísk stjórnvöld varið rúmum milljarði dollara í að boða skírlífi.

Þetta ákvæði var afnumið árið 2008 og síðan þá hefur minna fé verið varið í að breiða út skírlífi með áætluninni. Árið 2013 fóru 45 milljónir dollara enga síður í slík verkefni.

Rannsóknin sem fjallað er um á vefsíðu Scientific American leiddi hins vegar í ljós að þau fjórtán ríki sunnan Saharaeyðimerkurinnar sem fengu fjárstuðning til að boða skírlífi voru í engu frábrugðin ríkjum sem fengu hann ekki þegar kom að aldri fyrstu kynlífsreynslunnar, fjölda bólfélaga eða þunganir unglinga. Allir þessir þættir hafa verið tengdir aukinni hættu á að smitast af HIV.

Þess í stað sýndi rannsóknin að stærsti einstaki áhrifavaldurinn sem tengist minni líkum á að smiti var hversu lengi konur gengu í skóla. Einnig hefur reynst vel að veita þunguðum konum meðferð til að koma í veg fyrir að þær smiti barnið sem þær bera undir belti.

Frétt Scientific American

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert