Ákærður fyrir að bera sig á skólamynd

Yfirvöld í Arizona í Bandaríkjunum hafa fallið frá 70 ákæruatriðum á hendur menntaskólanema sem beraði sig á mynd af ruðningsliði skólans, sem birtist í árbókinni. Pilturinn var handtekinn um helgina og ákærður fyrir 69 tilfelli ósæmilegrar háttsemi og fyrir að láta einstaklingum undir lögaaldri í té skaðvænlegt efni.

Hin 69 ákæruatriði samsvara þeim fjölda sem var viðstaddur myndatökuna.

Hunter Osborn var 18 ára þegar atvikið átti sér stað, en hann sagði lögreglu að hann hefði berað á sér getnaðarliminn að áeggjan vinar síns í ruðningsliði Red Mountain High School í bænum Mesa, nærri Phoenix.

Það voru skólayfirvöld sem gerðu lögreglu viðvart eftir að myndin rataði í 3.400 eintök árbókar skólans og kynningarefni fyrir ruðningsliðið. 250 eintökum af árbókinni hafði verið dreift þegar upp komst og hafa þau verið endurkölluð.

Myndin verður ritskoðuð og árbókin endurprentuð.

Ákærurnar á hendur Osborn mættu mikilli gagnrýni, bæði í samfélaginu og á samfélagsmiðlum. Stuðningsmenn táningsins efndu m.a. til undirskriftarsöfnunar undir fyrirsögninni „Free Hunter Osborn“ og höfðu 6.000 skrifað undir þegar fallið var frá ákærunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert