Fannst á lífi eftir sex daga

Björgunarsveitarmenn hafa leitað í rústunum undanfarna daga.
Björgunarsveitarmenn hafa leitað í rústunum undanfarna daga. AFP

Kona hefur fundist á lífi í húsarústum í Naíróbí, höfuðborg Kenía. Fjölbýlishúsið hrundi til grunna fyrir sex dögum í kjölfar mikillar úrkomu. Björgunarsveitarmenn vinna nú að því að losa konuna úr rústunum. Hún er með meðvitund og hafa björgunarsveitarmennirnir talað við hana.

Yfirvöld hafa staðfest að minnst 33 hafi látist þegar húsið, sem var sex hæða, hrundi sl. föstudag. Yfir 80 er enn saknað, að því er segir í frétt á vef BBC.

Eigendur hússins voru handteknir sl mánudag en hefur nú verið sleppt gegn greiðslu tryggingar. 

Búið er að gefa konunni næringu í æð. Hún getur talað og er sögð vera glöð. 

Á þriðjudag fannst sex mánaða gamalt barn á lífi í rústunum. Móðir barnsins fannst daginn eftir en hún var þá látin. 

AFP
AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert