Fjöldamorðingi fær lífstíðardóm

Lonnie Franklin er einn afkastamesti fjöldamorðinginn í sögu Kaliforníu.
Lonnie Franklin er einn afkastamesti fjöldamorðinginn í sögu Kaliforníu. AFP/BARBARA DAVIDSON

Lonnie Franklin Jr., kallaður Grim Sleeper, var í dag fundinn sekur um að hafa myrt níu konur og unglingsstúlku á tímabili sem spannar tvo áratugi. Franklin, 63 ára fyrrverandi sorphirðustarfsmaður, á yfir höfði sér dauðadóm en honum verður gerð refsing 12. maí nk.

Viðurnefnið, sem er afbökun á Grim Reaper, eða Maðurinn með ljáinn, fékk Franklin vegna þess að allt að 13 ár liðu milli morða, en þau áttu sér stað frá 1985-2007.

Þrátt fyrir að hafa verið handtekinn árið 2010 í kjölfar þess að erfðaefni hans var tengt við nokkur morðanna, komu áfrýjanir og alls kyns lagalegar flækjur í veg fyrir að réttað væri yfir Franklin fyrr en nú.

Nokkur fórnarlamba hans voru vændiskonur og fíkniefnaneytendur, en hann ýmist skaut eða kyrkti fórnarlömb sín og kom líkum þeirra fyrir í húsasundum eða ruslagámum. Í nokkrum tilvikum nauðgaði hann fórnarlömbum sínum áður en hann myrti þau.

Yngsta þekkta fórnarlamb Franklin var 15 ára en elsta 35 ára. Yfirvöld telja hins vegar að hann gæti hafa orðið mun fleiri að bana en vitað er. Lögregla fann nærri 200 myndir og myndbönd af konum á heimili hans, en ekki hefur tekist að bera kennsl á þær allar.

Franklin sýndi engin viðbrögð í dómsal þegar dómurinn var lesinn upp.

Það var mikil tilviljun að upp komst um morðingjann, en slóðin lá frá syni hans sem var handtekinn árið 2008 fyrir vopnalaga- og fíkniefnabrot. Prófun á erfðaefni sonarins leiddi að lokum til handtöku föðurins.

Morðin voru viðfangsefni heimildarmyndar breska kvikmyndagerðarmannsins Nick Broomfield, sem hélt því fram að lögreglan hefði ekki rannsakað þau sem skyldi þar sem fórnarlömbin voru vændiskonur og fíkniefnaneytendur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert