Neyðarástand í Fort McMurray

Búið er að lýsa yfir neyðarástandi í Alberta-fylki í Kanada þar sem miklir skógareldar ógna borginni Fort McMurray. Allir íbúarnir, sem eru 88.000 talsins, hafa flúið heimili sín.

Að sögn yfirvalda fer eldurinn hratt yfir og óttast menn að hann muni valda gríðarlega mikilli eyðileggingu í borginni. 

Eldurinn kviknaði sl. sunnudag, en svæðið er ríkt af svokölluðum olíusandi Nú þegar hefur hann brennt 1.600 byggingar til grunna, þar á meðal nýjan skóla. 

Þetta er umfangsmesta rýming í sögu Alberta. Þá kemur fram á vef BBC, að olíuframleiðslufyrirtæki á svæðinu hafi neyðst til að draga verulega úr framleiðslu. Nokkur fyrirtæki hafa stöðvað allan olíuflutning í gegnum olíuleiðslur, en þetta var gert til að hægt væri að koma starfsmönnum í skjól. 

Ekki hafa borist fregnir af dauðsföllum eða slysum. Reuters-fréttastofan segir hins vegar að tvær konur hafi fætt börn í neyðarmiðstöðvum sem voru settar upp vegna brunans. 

Sjónarvottur segir í samtali við BBC að ástandið minni einna helst á atriði úr kvikmynd. „Ég var fastur á milli steypuveggs og eldsins og ég sagði við sjálfan mig: „Veistu, ég á mögulega enga undankomuleið.““

Hann segir ennfremur að heilu hverfin séu farin. „Hótel brann til kaldra kola, bensínstöð sprakk í loft upp. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert