Spennuþrungin ró í Aleppo

Yfir 300 hafa fallið sl. tvær vikur í bardögum stjórnarhersins …
Yfir 300 hafa fallið sl. tvær vikur í bardögum stjórnarhersins við uppreisnarmenn. AFP

Spennuþrungin ró er sögð ríkja í sýrlensku borginni Aleppo eftir að vopnahlé, sem nær til hluta borgarinnar, tók gildi. Íbúar eru sagðir hafa farið út fyrir hússins dyr í fyrsta sinn í tvo sólarhringa, en vopnahléið tók gildi í morgun.

Þetta kemur fram á vef BBC. Þar segir ennfremur, að það komi fram í sýrlenskum ríkisfjölmiðlum og frá eftirlitshópum að einn hafi látist í borginni í kjölfar árása uppreisnarmanna í nótt. 

Bardagar í Aleppo hafa ógnað vonum manna um að koma á friði í landinu, en vonast er til að hægt sé að fá stríðandi fylkingar til að leggja niður vopnin og hefja formlegar friðarviðræður. 

Undanfarnar tvær vikur hafa hátt í 300 fallið í bardögum stjórnarhermanna og uppreisnarmanna í Aleppo. 

Sýrlenska ríkissjónvarpið lýsti því yfir að herinn hafi ákveðið að vopnahléið myndi taka gildi klukkan eitt í nótt að staðartíma (klukkan 22 í gærkvöldi að íslenskum tíma). 

John Kerry, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, sem átti þátt í að miðla málum í samskiptum við Rússa og Sameinuðu þjóðirnar og koma á vopnahléi, hvatti allar fylkingar til að standa við samkomulagið.

Þá hvatti Kerry uppreisnarmenn til að halda sig frá al-Nusra, hreyfingu íslamista sem tengjast al-Qaeda, sem og liðsmönnum Ríkis íslams, en vopnahléið tekur ekki til þessara samtaka í vopnahléssamkomulaginu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert