Eitraði sælgætið viljandi

Bal Mithai, teg­und af pakistönsku sæta­brauði
Bal Mithai, teg­und af pakistönsku sæta­brauði Af Wikipedia

Eigandi sælgætisverslunar í Pakistan hefur játað að hafa vísvitandi sett skordýraeitur í sælgæti sem hann seldi. Þetta gerði hann til að hefna sín á bróður sínum. Hið eitraða sælgæti varð að minnsta kosti þrjátíu manns að bana.

Frétt mbl.is: 33 látnir úr sætabrauðseitrun

Khalid Mehmood játaði í dómssál að hafa eitrað sælgætið eftir að eldri bróðir hans, Tariq, sem á búðina með honum, hafði „móðgað hann og misnotað“ í viðskiptum.

„Ég vildi kenna honum lexíu,“ sagði maðurinn við réttarhöldin. „Ég var svo reiður að ég blandaði skordýraeitri í sætabrauð sem var verið að baka.“

Það var svo maður, sem tengist bræðrunum ekkert, sem keypti sælgætið og bauð það vinum og vandamönnum til að halda upp á fæðingu barnabarns hans. 

Faðir barnsins, sex frændur hans og ein frænka, voru meðal þeirra þrjátíu sem létust. Fimm börn voru meðal hinna látnu. Fjórir liggja enn á sjúkrahúsi vegna eitrunarinnar.

Bræðurnir voru báðir handteknir er málið komst upp. Í fyrstu var talið að eitrunin hefði orðið fyrir mistök þar sem búð sem seldi skordýraeitur í nágrenninu hafði verið lokað og eitrið geymt í sælgætisbúðinni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert