Fannst eftir tvo mánuði á hafi úti

Maðurinn ræddi við blaðamenn með aðstoð túlks.
Maðurinn ræddi við blaðamenn með aðstoð túlks. Úr frétt CNN

29 ára gömlum Kólumbíumanni sem var bjargað úr vélvana bát í síðustu viku eftir tvo mánuði á hafi úti segist þakka guði fyrir að vera á lífi. Hann þurfti að horfa á þrjá samferðamenn sína deyja í bátnum áður en honum var bjargað.

Maðurinn kom til Honolulu á miðvikudaginn en honum var bjargað af panamska fragtskipinu Nikkei Verde þann 26. apríl í um 3.500 kílómetra fjarlægð frá Hilo í Hawaii.

Sagði hann áhöfninni að hann og þrír aðrir menn hefðu lagt af stað frá Kólumbíu rúmum tveimur mánuðum áður. Þegar að vélin hætti að virka rak báturinn útá haf og lifðu mennirnir með því að borða fisk og máva.

Hann sagði að þrír samferðarmenn hans hefðu látið lífið og afhenti vegabréf þeirra. Líkin voru ekki um borð í bátnum þegar að maðurinn fannst. Skip á vegum bandarísku landhelgisgæslunnar sótti manninn og fór með hann til Honolulu.

John MacKinnon, yfirmaður hjá landhelgisgæslunni sagði á blaðamannafundi manninn mjög heppinn að hafa fundist. „Kyrrahafið er víðáttumikið og í eðli sínu hættulegt,“ sagði MacKinnon. „Þessi maður var mjög heppinn að áhöfn Nikkei Verde sá hann þar sem hann var á svæði þar sem ekki er mikil umferð skipa.“

Maðurinn ræddi við blaðamenn í gegnum túlk og sagðist þakka guði að vera á lífi og sagðist syrgja samferðarmenn sína sem létu lífið.

Frétt CNN.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert