Loftárásir gegn glæpagengjum

Luis Carlos Villegas, varnarmálaráðherra Kólumbíu í ræðupúlti.
Luis Carlos Villegas, varnarmálaráðherra Kólumbíu í ræðupúlti. AFP

Kólumbísk stjórnvöld hafa heimilað hernum að beita öllum tiltækum ráðum gegn þremur stærstu glæpagengjum landsins, þar á meðal loftárásum. Fram að þessu hefur hernum aðeins verið beitt gegn vinstrisinnuðum skæruliðum en ákvörðunin er meiriháttar stigmögnun á baráttunni gegn skipulögðum vopnuðum hópum.

Luis Carlos Villegas, varnarmálaráðherra Kólumbíu, tilkynnti um tilskipunina eftir sérstakan fund nefndar öldungadeildar þingsins í norðvesturhluta landsins. Aðgerðunum er sérstaklega beint gegn glæpagengjunum Clan Usuga, Los Pelusos og Los Puntilleros.

Samtökin hafa verið skilgreind sem „skipulagðir vopnaðir hópar“ vegna þess að þau koma sér upp búðum, þungavopnum, einkennisbúningum og eiga sér yfirráðasvæði, að sögn Villegas.

Auk loftárása gætu sérsveitir hersins beitt fyrirsátum, leyniskyttum og stórskotaliði gegn glæpasamtökunum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert