„Draugaskip“ rekur að landi

Kort/Google Maps

Olíuskip hefur rekið á land við strendur Líberíu í vesturhluta Afríku. Það er skráð í Panama en áhöfnina er hvergi að finna. Lögreglu- og innflytjendayfirvöld í Líberíu rannsökuðu skipið, sem ber nafnið Tamaya 1, í síðustu viku en það fannst nærri Robertsport.

Síðast er vitað um ferðir skipsins 21. apríl sl., þegar það var skammt frá Gambíu og Senegal. Skipið, sem er 64 metra langt, var þá á leið til hafnar í Dakar í Senegal, samkvæmt vefsíðunni Marine Traffic.

„Okkar besta ágiskun er að eigandi skipsins hafi mögulega orðið auralítill og ekki getað greitt áhöfninni,“ hefur Liberian Daily Observer eftir heimildarmanni hjá hafnaryfirvöldum. „Því hafi áhöfnin yfirgefið skipið.“

Enga björgunarbáta er að finna um borð í skipinu.

Eftir að skipið hafði legið við ströndina nokkra daga var farið um það ránshendi og kenningar voru á lofti um að áhöfnin hefði yfirgefið skipið vegna sjóræningja eða eldsvoða. Lögregla hefur leitast við að halda almenningi frá skipinu.

Sjóránum á olíutankskipum hefur fækkað í samfara lækkandi olíuverði.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert