Fimmtíu aðstoðuðu við fæðingu fimmbura

Kim Tucci ásamt börnunum fimm.
Kim Tucci ásamt börnunum fimm. Ljósmynd/Erin Elizabeth

Fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar aðstoðuðu ástralska móður við að koma fimmburum í heiminn. Börnin, fjórar stúlkur og einn drengur, voru tekin með keisaraskurði, og eru öll heilbrigð. Þau voru getin með náttúrulegum hætti. Líkur á slíkum getnaði eru 1 á móti 55 milljónum, segir í frétt BBC um málið.

Kim Tucci er 26 ára og býr í Perth í Ástralíu. Hún hélt úti Facebook-síðu á meðgöngunni, Fimm komu á óvart, Surprised by Five. Þar sagði hún reglulega frá sínu daglega lífi. Ljósmyndarinn Erin Elizabeth tók svo myndir af henni alla meðgönguna og einnig af fimmburunum eftir að þeir komu í heiminn. Tucci birti nokkrar myndir af börnunum á Facebook í gær.

„Fimmtíu fingur, fimmtíu tær, sex hjörtu sem slógu sem eitt. Líkami minn barðist af hörku til að koma þessum börnum hingað með öruggum hætti,“ skrifaði Tucci er hún birti myndirnar. „Allt sem ég gerði, gerði ég fyrir þau.“

Tucci var í viðtali við fréttaskýringarþáttinn 60 mínútur í apríl. Þar sagði hún frá því að í upphafi hafi læknar boðið henni að halda tveimur fóstrum en eyða hinum þar sem mjög mikil áhætta fælist í því að ganga með fimm börn. „Enginn trúði því að ég gæti þetta, en ég gat þetta,“ sagði hún en börnin fæddust í janúar.

Fleiri börn eru á heimilinu. Fyrir áttu Tucci og eiginmaður hennar níu ára son og tvær dætur, fjögurra og tveggja ára gamlar.

Fjölskyldan er nú að safna peningum fyrir bíl sem hentar allri fjölskyldunni.

Fimmburarnir eru frískir.
Fimmburarnir eru frískir. Ljósmynd/Erin Elizabeth
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert