Fara til Indlands í kynleiðréttingu

Betty Ann Archer, 64 ára, vissi frá upphafi að líkami …
Betty Ann Archer, 64 ára, vissi frá upphafi að líkami sinn samsvaraði ekki upplifun sinni. AFP

Eftir áratugalanga baráttu við þunglyndi flaug transkonan Betty Ann Archer, fyrrverandi hermaður, til Nýju Delhi til að ljúka kynleiðréttingarferlinu. Archer, sem var skírð Dale við fæðingu, er meðal vaxandi fjölda útlendinga sem leita til Indlands til að gangast undir kynleiðréttingaraðgerðir á viðráðanlegu verði.

Hin 64 ára Archer, frá Arizona í Bandaríkjunum, man ekki annað en að finnast hún föst í röngum líkama. Þegar hún var barn laumaðist hún til að máta kjóla móður sinnar, íhaldssömum föður sínum til mikils hryllings.

„Ég gerði tvisvar tilraun til sjálfsvígs... ég kunni ekki við sjálfa mig. Ég fann mig alls ekki í líkama mínum. Ég gat ekki verið ég sjálf,“ segir Archer.

„Ég varð mjög veik árið 2011 og nærri dauðanum,“ bætir hún við, íklædd bláum sari og indverskum skargripum sem hún keypti eftir að hún gekkst undir aðgerðina í Delhi. „Þegar ég var að ná bata komst ég að þeirri niðurstöðu að ég þyrfti að gangast undir kynleiðréttingu ellegar deyja.“

Lítill en stækkandi fjöldi transfólks ferðast nú til íhaldssamra ríkja á borð við Indland til að gangast undir kynleiðréttingaraðgerðir, en aðgerðirnar eru bæði ódýrari þar og biðlistarnir engir.

Sumir velja Indland, sem hefur útskúfað eigið transsamfélag, framyfir Thaíland sem þó þykir frjálslyndara gagnvart transfólki. Í nóvember sótti Archer heim læknastöðina Olmec Centre í norðurhluta Delhi, sem hún valdi framyfir aðrar stöðvar í Thaílandi þar sem henni þóttu þær „aðeins of dýrar“.

„Þetta er viðráðanlegt. Þetta er valkostur sem sumt transfólk getur skoðað og ekki þurft að fremja sjálfsvíg af því að það hefur ekki efni á þessu,“ segir Archer. Hún greiddi um það bil 6.000 Bandaríkjadollara, jafnvirði 730.000 króna, fyrir aðgerðirnar. Það er um það bil fimmtungur þess sem þær hefðu kostað í Bandaríkjunum.

Verslunarferðir

Þær aðgerðir sem Olmec-læknastöðin býður upp á kosta allt að 22.000 Bandaríkjadollara en innifalið er dvölin, ferðir til og frá flugvellinum, og umönnun í kjölfar aðgerðinna sem felur m.a. í sér verslunarferðir og heimsóknir á þekkta ferðamannastaði á borð við Taj Mahal.

Narendra Kaushik, lýtalæknir og stofnandi Olmec, segist framkvæma um 200 kynleiðréttingaraðgerðir á ári, flestir á indverskum skjólstæðingum. Kaushik segir hins vegar að þeim sé að fjölga sem sæki þjónustu læknastöðvarinnar að utan, t.d. frá Bretlandi, Bandaríkjunum og Ástralíu.

Sumir séu á höttunum eftir hagstæðari kjörum en þá sækja einnig þjónustuna skjólstæðingar frá fátækari ríkjum sem vilja meiri gæði en standa þeim til boða í heimalandinu.

Fjöldinn hefur vaxið úr fimm á ári í tuttugu, og Kaushik spáir því að hann muni halda áfram að aukast. „Fjöldi aðgerða fer vaxandi dag frá degi,“ segir hann. „Þetta samfélag hefur tengsl út um allan heim... Ef þau eru ánægð með aðgerðirnar sem eru framkvæmdar á Indlandi þá berst það út.“

Margir útlendinganna sækja þjónustuna til Indlands vegna þess hversu viðráðanlegt …
Margir útlendinganna sækja þjónustuna til Indlands vegna þess hversu viðráðanlegt verðið er, en transfólk frá fátækari ríkjum ferðast til Indlands til að tryggja sér gæði sem þeir fá ekki heima fyrir. AFP

Stjórnvöld á Indlandi hafa unnið að því að kynna heilbrigðistúrisma landsins og m.a. brugðið á það ráð að flýta fyrir útgáfu svokallaðra M-áritana, sem gilda í eitt ár. Áætlanir gera ráð fyrir að hinn 3 milljarða dollara iðnaður muni tvöfaldast að stærð fyrir árið 2020.

Yfir 250.000 „sjúklingar“, sem gangast undir allt frá mjaðmaskiptaaðgerðum til andlitslyftinga, ferðast til Indlands árlega samkvæmt bandaríska ráðgjafafyrirtækinu Patient Beyond Borders.

Fjöldinn er reyndar langt frá því að jafnast á við þann fjölda sem leitar til Thaílands, sem laðar til sín 2 milljónir heilbrigðistúrista á ári hverju, en framkvæmdastjóri Patient Beyond Borders, Josef Woodman, er þess fullviss að í framtíðinni verði Indland helsti áfangastaður þeirra sem þurfa að gangast undir kynleiðréttingaraðgerðir.

„Ég held eftir um það bil þrjú eða fimm ár,“ segir hann. „Þetta tekur tíma.“

Woodman segir einhverja kunna að hafa efasemdir um Indland vegna þess hvernig brotið er á transfólki í inversku samfélagi. Indverskt transfólk, kallað hijras, er talið telja nokkrar milljónir og er oft útskúfað. Sumir enda sem öreigar og neyðast til að betla eða leggja stund á vændi.

„Vildi það allra besta“

Rosy Mica Kellet, fyrrverandi fiðluleikari, ákvað að ferðast til Indlands eftir að hafa heyrt hæfileika Kaushik dásamaða. Aðgerðirnar sem hún gekkst undir kostuðu hana 14.000 pundum minna en þær hefðu gert í  heimalandi hennar, Bretlandi.

„[Aðgerðirnar] eru umtalsvert ódýrari hér en heima og í flestum löndum, jafnvel Thaílandi,“ segir hin gifta, 50 ára Kellet. „Sumar umsagnirnar sem ég heyrði um þessa aðgerð í Thaílandi virtust ekki benda til þess að hún væri jafn þróuð og hjá lækninum mínum.“

„Ég vildi það allra besta og fékk hið allra besta.“

Indverskt samfélag er íhaldssamt og transfólk er litið hornauga. Brotið …
Indverskt samfélag er íhaldssamt og transfólk er litið hornauga. Brotið er gegn því og það útskúfað. AFP

Inverskir lýtalæknar hafa unnið að þróun eigin aðferða við kynleiðréttingaraðgerðir, m.a. fyrir aðgerðir þar sem kvenkynseinkennum er breytt í karlkynseinkenni, en þær eru flóknar og ekki framkvæmdar jafn víða og þegar leiðrétt er úr karlkynseinkennum yfir í kvenkynseinkenni.

Shobha Mishra Ghosh, framkvæmdastjóri eftirlitsstofnunarinnar FICCI, segir hins vegar að löggjafinn verði að leggja harðar af sér ef stefna á að því að gera Indland að einum helsta áfangastað heims þegar kemur að kynleiðréttingaraðgerðum.

„Ef við getum komið mynd á allt „vistkerfið“, þá mun mikið af umferð sem beinist annað koma til okkar. Að því leyti tel ég að við séum með pálmann í höndunum,“ segir hún.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert