„Heimskir“ ferðamenn ollu dauða kálfsins

Kálfurinn í skottinu á bílnum.
Kálfurinn í skottinu á bílnum. Skjáskot/Twitter

Aflífa varð vísundskálf í Yellowstone-þjóðgarðinum í Bandaríkjunum eftir að ferðamenn, sem héldu að hann væri með kvef, settu hann í bíl sinn. Þetta varð til þess að móðir hans afneitaði honum er hann kom aftur í hjörðina.

Þjóðgarðsverðir segja að ferðamennirnir hafi brugðist „heimskulega“ við er þeir settu kálfinn í skottið á bíl sínum. Þeir fengu sekt fyrir uppátækið er mögulega verða þeir einnig kærðir.

Kona sem varð vitni að því er parið á bílnum ók upp að húsi þjóðgarðsvarðanna segir að fólkið hafi haldið því fram að kálfurinn hafi verið að krókna úr kulda. Vísundar eru harðgerð dýr og eru þekktir fyrir að lifa af mjög kalda vetur í Norður-Ameríku.

Daginn sem atvikið átti sér stað var hitinn í þjóðgarðinum á bilinu 5-10 gráður. Annar gestur í garðinum hafði varað parið við að taka kálfinn upp í bíl sinn og sagt að hann þyrfti ekki björgun. 

„Þeim var sama. Þau heldu í alvöru að þau væru að gera góðverk.“

Þjóðgarðsverðirnir reyndu síðar að sameina kálfinn og móðurina. En það tókst ekki. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert