Typpiságræðslan heppnaðist vel

Thomas Manning er brattur eftir aðgerðina.
Thomas Manning er brattur eftir aðgerðina.

Fyrsta ágræðsla getnaðarlims í Bandaríkjunum var nýverið framkvæmd af læknum í Massachusetts fyrir nokkrum dögum. Sjúklingnum heilsast vel og er að jafna sig eftir aðgerðina sem tók fimmtán klukkutíma. Læknarnir segja hana marka tímamót.

Í frétt CNN um málið segir að yfir fimmtíu læknar og hjúkrunarfræðingar hafi komið að gerðinni á hinum 64 ára gamla. Thomas Manning. Aðgerðin var framkvæmd fyrr í mánuðinum. Manning er frá Halifax. Hann greindist með krabbamein árið 2012 og varð að fjarlægja getnaðarlim hans að þeim sökum.

Aðgerðin var mjög vandasöm enda þurfti að tengja saman æða-, tauga og þvagrásarkerfi Mannings og gjafalimsins.

Dicken Ko, yfirlæknir á þvagfæraskurðdeild sjúkrahússins, segir að vonast sé til þess að heppnast hafi að tengja þvagrásina svo Manning geti pissað eðlilega. Einnig er vonast til þess að hann geti stundað kynlíf í framtíðinni. Þó er markmiðið ekki það að Manning geti notað lim sinn til getnaðar, m.a. vegna siðferðislegra spurninga um faðerni mögulegs barns, segir í frétt CNN um málið.

Manning er enn að jafna sig en læknar hans segja hann á góðum batavegi. Hann sýni engin merki um að hafna limnum og engar blæðingar eða sýkingar komið upp. Vonast er til þess að hann geti yfirgefið sjúkrahúsið á næstu dögum.

„Í dag byrja ég nýjan kafla í lífinu mínu sem er fullur af von fyrir mig og von fyrir aðra sem hafa meiðst á kynfærum,“ sagði í yfirlýsingu sem Manning sendi frá sér. 

Aðgerðin á Manning er ekki fyrsta typpaágræðslan í heiminum, t.d. var ein slík aðgerð framkvæmd árið 2014 í Suður-Afríku og á Indlandi nokkrum árum áður.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert