Ein stúlknanna frá Chibok fundin

Stúlkurnar hafa birst í myndböndum Boko Haram, síðast í apríl …
Stúlkurnar hafa birst í myndböndum Boko Haram, síðast í apríl sl., en 218 er enn saknað. AFP

Ein af skólastúlkunum sem var rænt af liðsmönnum hryðjuverkasamtakanna Boko Haram í Chibok í Nígeríu í apríl 2014, fannst á þriðjudag í Sambisa-skóginum nærri landamærum Kamerún.

Það var hópur bardagamanna sem fann stúlkuna, Aminu Ali Nkek, en að sögn Hosea Abana Tsambido, leiðtoga Chibok-samfélagsins í höfuðborginni Abuja, var hópurinn að leita að eldivið í skóginum þegar stúlkan fannst.

BBC hefur eftir heimildarmönnum að stúlkan sé frá bænum Mbalala, suður af Chibok, en 25 stúlknanna komu frá sama bæ. Nágranni sagði í samtali við BBC að barn hefði fundist með Aminu. Amina var 17 ára þegar henni var rænt og er 19 ára í dag.

Þegar árásarmenn létu til skarar skríða 2014 voru 276 stúlkur fluttar burt á bifreiðum. Nærri 50 tókst að flýja en 218 er enn saknað. CNN birti myndband í apríl sl. sem virðist benda til þess að a.m.k. einhverjar stúlknanna séu enn á lífi.

Fimmtán sjást á myndbandinu, íklæddar svörtu. Segjast þær í góðu yfirlæti en sakna fjölskyldna sinna. Myndbandið ku hafa verið tekið upp á jóladag í fyrra og kennsl hafa verið borin á einhverjar stúlknanna.

Umfjöllun BBC.

Uppfært kl. 14.34:

BBC hefur eftir stúlkunni að sex þeirra sem var rænt séu látnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert