Fannst heill á húfi eftir fimm ár

Wright-fjölskyldan með Eddie.
Wright-fjölskyldan með Eddie. Skjáskot/Guardian

Eddie, hundur af tegundinni yorkshire terrier, skilaði sér nýlega heim eftir að hafa verið saknað í fimm ár. Sandra Wright, eigandi Eddie, hélt að hún myndi aldrei sjá hann aftur en hann hvarf frá heimili mágkonu hennar í Fallowfield í Machester í Bretlandi.  

Fjölskyldan, sem býr í Reddish í Stockport, gerði sitt besta til að hafa uppi á hundinum. Þau gengu um götur bæjarins ásamt hjálpsömum nágrönnum, settu upp plaköt til að vekja athygli á horfna hundinum, tilkynntu hvarfið til lögreglu og buðu jafnvel fundarlaun.

„Hann hvarf einfaldlega. Eftir því sem vikurnar liðu vissum við að líkurnar á því að finna hann  urðu sífellt minni. Það var hræðilegt,“ sagði Wright í samtali við fjölmiðla en Guardian fjallar um málið.

Jeantte Johnson, sem einnig býr í Reddish, tók Eddie að sér eftir að nágranni hennar átti erfitt með að sjá um hann. Hún fór með hundinn á dýraspítala í eftirlit og þá kom í ljós að búið var að örmerkja Eddie. Skömmu síðar fékk Wright-fjölskyldan símtal þar sem þeim var greint frá því að hundurinn væri heill á húfi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert