Trump boðið til Bretlands

Donald Trump.
Donald Trump. AFP

Donald Trump, væntanlegur forsetaframbjóðandi repúblikana, segir að David Cameron, forsætisráðherra Bretlands, hafi boðið honum í heimsókn að Downingstræti 10 og að hann muni kannski þiggja boðið.

Trump gaf þó engar frekari skýringar á boðinu í samtali við MSNBC, þar á meðal hvenær heimsóknin verður.

Fregnirnar hafa vakið þónokkra athygli, enda hefur breski forsætisráðherrann gagnrýnt Trump heldur harðlega, sér í lagi tillögu forsetaframbjóðandans um að meina múslimum að koma til Bandaríkjanna.

Í desembermánuði kallaði Cameron tillögu Trumps „sundrandi, heimska og ranga“ og gaf til kynna að hann myndi sameina bresku þjóðina gegn sér ef hann kæmi í heimsókn til Bretlands.

Eftir að Trump sigraði forkosningar repúblikana fyrr í mánuðinum viðurkenndi Cameron þó að hann hefði náð góðum árangri. Cameron sagðist samt standa við fyrri ummæli sín og ekki ætla að biðjast afsökunar á þeim.

Trump svaraði að bragði og sagði á mánudaginn að hann myndi líklegast ekki eiga í góðu sambandi við Cameron. Hann linaðist þó aðeins í afstöðu sinni í kjölfarið og sagði daginn eftir að þeir gætu mögulega náð vel saman. „Ég held hann sé fínn náungi,“ sagði hann við MSNBC fyrr í dag. „Þeir hafa boðið mér að heimsækja Downingstræti 10 og ég geri það kannski,“ bætti hann við.

Talsmaður Camerons segir að forsætisráðherrann muni starfa með sigurvegara bandarísku forsetakosninganna 8. nóvember næstkomandi, sama hver það verður. Samband Bretlands og Bandaríkjanna sé sterkt og verði áfram svo.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert