101 lét lífið í sjö sprengingum í Sýrlandi

Borgarbúar virða fyrir sér skemmdir eftir eina af fjórum sprengju …
Borgarbúar virða fyrir sér skemmdir eftir eina af fjórum sprengju sem varð 53 að bana í borginni Jableh í dag AFP

Að minnsta kosti 101 lét lífið er sjö sprengjur sprungu næstum samtímis í dag í tveimur sýrlenskum borgum sem stjórnarher Assads Sýrlandsforseta hefur á valdi sínu, að því er ríkisfjölmiðlar í landinu greindu frá.

Sprengjurnar, sem  sprungu í hafnarborgunum Tartus og Jableh, kostuðu a.m.k. 101 manns lífið að sögn AFP-fréttastofunnar og að minnsta kosti 120 til viðbótar eru særðir að sögn sýrlensku mannréttindavaktarinnar.

Þrjár sprengjur, þar af tvær sjálfsvígssprengjur, sprungu í borginni Tartus  og urðu 48 að bana. Fimmtíu og þrír til viðbótar fórust í fjórum sprengingum, þar af þremur sjálfsvígssprengingum, í borginni Jableh á sama tíma.

Hryðjuverkasamtökin Ríki íslams hafa lýst árásunum á hendur sér, en að sögn fréttavefjar BBC sprungu sprengjurnar m.a. á strætisvagnastöðvum og sjúkrahúsi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert