41 fórst í sprengingum í Jemen

Sjálfsvígsárásin var gerð nágrenni Badr herstöðvarinnar.
Sjálfsvígsárásin var gerð nágrenni Badr herstöðvarinnar. AFP

Að minnsta kosti 41 fórst í tveimur sprengingum í jemensku hafnarborginni Aden í dag. 34 fórust í sjálfsvígsárás á hóp manna sem biðu í biðröð  eftir að skrá sig í jemenska herinn og sjö hermenn til viðbótar fórust er sprengja sprakk innan Badr-herstöðvarinnar skömmu síðar, að því er AFP-fréttastofan hefur eftir talsmönnum jemenska hersins.

Sjálfsvígsmaðurinn sprengdi sprengjubelti sem hann bar um sig miðjan á meðan hann beið í röð við skráningarskrifstofu hersins í nágrenni Badr-herstöðvarinnar með þeim afleiðingum að a.m.k. 34 fórust.  Herstöðin er í Khormaksar-hverfinu þar sem skrifstofur stjórnar Abedrabbo Monsour Hadi, forseta landsins, eru staðsettar.

Hryðjuverkasamtökin al-Qaeda og Ríki íslams hafa bæði lýst yfir ábyrgð á röð árása á stjórnarher Jemen undanfarið, en herinn hrakti Huthi-uppreisnarmenn frá borginni í júlí á síðasta ári með aðstoð Sádi-Araba. Hvor tveggja hryðjuverkasamtökin hafa nýtt sér valdatómið sem myndaðist með brottför Huthi-liða til að auka ítök sín í suður- og suðausturhluta Jemen.    

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert