Annar Everest-fari ferst

Frá Everest-fjalli.
Frá Everest-fjalli. AFP

Indverskur fjallgöngumaður lést á Everest-fjalli í gær og tveggja förunauta hans er saknað. Maðurinn komst á tind fjallsins á laugardag en hné niður þegar hann var að fara niður Hillary-þrepið. Fimm manns hafa farist það sem af er þessu göngutímabili á fjallinu.

Hópurinn sem göngumaðurinn var í missti samband við skipuleggjendur göngunnar á laugardag. Samband náðist aftur við hann og einn félaga hans í gær en ekkert hefur spurst til hinna tveggja sem voru í hópnum. Maðurinn lést á meðan leiðsögumenn báru hann niður.

Fjórir aðrir fjallgöngumenn hafa farist í Himalaya-fjöllum undanfarna daga. Á laugardag lést áströlsk kona úr háfjallaveiki en daginn áður hlaut hollenskur fjallgöngumaður sömu örlög eftir að hann komst á tind Everest.

Nepalskur leiðsögumaður fórst á fimmtudag eftir að honum skrikaði fótur og hann steyptist tvö þúsund metra niður Lhotse-fjall, fjórða hæsta fjall jarðar. Annar indverskur fjallgöngumaður veiktist og lést þegar hann var á leið niður Dhaulagiri-fjall.

Fjallgöngutímabilið stendur frá miðjum apríl til loka maí. Nepölsk yfirvöld gáfu út leyfi til 289 erlendra fjallgöngumanna í ár. Leiðsögumenn og björgunarþyrlur hafa þurft að bjarga þrjátíu fjallgöngumönnum með háfjallaveiki og kal. 

Fyrri frétt mbl.is: Tveir létu lífið á Everest

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert