Ber ábyrgð á dauða viðskiptavinar

Hnetur hollusta
Hnetur hollusta mbl.is/Árni Sæberg

Eigandi indversks veitingastaðar í Bretlandi hefur verið dæmdur í sex ára fangelsi fyrir að valda dauða viðskiptavinar sem var með hnetuofnæmi.

Mohammed Zaman var fundinn sekur um manndráp af gáleysi, en hann seldi manni máltíð sem innihélt hnetur þó svo að viðskiptavinurinn hafði lagt áherslu á að hún þyrfti að vera hnetulaus.

Paul Wilson fékk bráðaofnæmiskast eftir að hafa pantað máltíðina og lést skömmu síðar.

Við réttarhöldin var því haldið fram að Zaman hefði sett „gróða fram fyrir öryggi“ með því að vara viðskiptavini ekki við því að hann notaði hnetur í matseldinni. Þá hafði hann verið varaður við af eftirlitsfulltrúa aðeins viku áður en Wilson lét lífið í janúar 2014.

Hann fannst látinn á heimili sínu og þegar lögregla hóf að rannsaka andlát hans fundust umbúðirnar af kvöldmatnum sem hann keypti af Zaman. Á lokinu og á kvittuninni stóð „Engar hnetur“. Kom í ljós að jarðhnetuduft hafi verið notað í eldhúsinu og smitast yfir í önnur hráefni.

Zaman hélt því fram að það hefði verið á ábyrgð vaktstjóra á staðnum að panta inn birgðir og að hann sjálfur hefði ekki verið viðstaddur þegar rétturinn var seldur.

Frétt Sky News.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert