Hætti að tala um „slys“

Í Bandaríkjunum vex hreyfing fyrir því að hætta að tala …
Í Bandaríkjunum vex hreyfing fyrir því að hætta að tala um umferðarslys og tala frekar um árekstra. Myndin er úr safni. mbl.is/Júlíus

Vaxandi fjöldi baráttufólks fyrir umferðaröryggi, embættismanna og stjórnmálamanna vill að hætt verði að tala um „slys“ þegar kemur að óhöppum í umferðinni. Með því að nota það orð sé gert lítið úr mannlegum mistökum, sem séu helsta orsök umferðarslysa. Frekar eigi að tala um árekstra.

Nær allir árekstrar verða vegna athafna bílstjóra, eins og ölvunar, truflunar við akstur eða annarrar áhættuhegðunar. Um sex prósent slysa verða aftur á móti vegna bilana, veðuraðstæðna eða annars, að því er kemur fram í umfjöllun New York Times.

Með því að breyta því hvernig talað er um umferðarslys telur fólk eins og Mark Rosekind, forstöðumaður umferðaröryggisstofnunarinnar (NHTSA), að hægt sé að uppræta þann hugsunarhátt fólks, og stjórnmálamanna sérstaklega, að engum sé um að kenna eins og orðið „slys“ gefi til kynna. Ein helsta ástæða þess að banaslysum í umferðinni í Bandaríkjunum hafi fjölgað sé almennt áhugaleysi á vandamálinu.

„Þegar maður notar orðið „slys“ er það eins og „guð lét þetta gerast“. Tungumálið getur breytt öllu í samfélagi okkar,“ sagði Rosekind á ráðstefnu í lýðheilsuskóla Harvard-háskóla um umferðaröryggi á dögunum.

Nokkur ríki hafa byrjað að uppræta orðið „slys“ úr orðaforðanum í kringum umferðaróhöpp. Í Nevada voru samþykkt lög nær samhljóða um að skipta orðinu út fyrir „árekstur“ hvar sem það kemur fyrir í ríkislögum.

Í New York-borg var tekin upp sú stefna fyrir tveimur árum að hætta að líta á umferðarárekstra sem slys. Fleiri borgir eins og San Francisco hafa farið sömu leið.

Aðstandendur fólks sem hefur látist í árekstrum hafa sumir barist fyrir því að ekki sé talað um „slys“ í þessu sambandi. Ekki eigi að fría ökumenn sem eiga aðild að banaslysum af ábyrgð eingöngu vegna þess að þeir lifðu af og gátu sagt sína hlið sögunnar.

„Hvaða sögu hefur maður þegar árekstur verður? Ökumannsins! Fórnarlambið er látið. Ályktunin ætti að vera sú að kalla það árekstur, sem er hlutlaust hugtak,“ segir Amy Cohen, sem missti son sinn Sammy þegar ekið var yfir hann í Brooklyn árið 2013.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert