Hefja brottflutning úr Idomeni-búðunum

Lögregla er byrjuð að flytja fólk af lestarteinunum milli Grikklands …
Lögregla er byrjuð að flytja fólk af lestarteinunum milli Grikklands og Makedóníu, en enginn lestarumferð hefur getað farið um teinana sl. mánuð. AFP

Yfirvöld í Grikklandi hafa tilkynnt að á næstu dögum hefjist brottflutningar þúsunda flóttamanna og hælisleitenda úr Idomeni-flóttamannabúðunum sem standa við landamæri Grikklands og Makedóníu í norðurhluta landsins.  

Áætlað er að verkið taki um viku og hefur fréttavefur BBC eftir talsmanni stjórnvalda að brottflutningarnir hefjist á morgun eða á miðvikudag, en grískar sjónvarpsstöðvar hafa sagt aukinn liðstyrk lögreglu hafa verið sendan á svæðið.

Idomeni-flóttamannabúðirnar urðu til þegar stjórnvöld í Makedóníu lokuðu landamærum sínum að Grikklandi, með þeim afleiðingum að um 8.000 manns sem voru á leið til Norður-Evrópu urðu strandaglópar við landamærin. Flestir hælisleitendanna, sem koma frá átakasvæðum á Sýrlandi, Írak og Afganistan, hafa hafnað tilboðum grískra stjórnvalda um að flytja sig annað, þrátt fyrir að dvelja við ömurlegar aðstæður í búðunum. Segja þeir flutninga í aðrar flóttamannabúðir flytja þá fjær landamærunum.

Giorgos Kyritsis, talsmaður grísku ríkisstjórnarinnar, sagði í viðtali við gríska sjónvarpsstöð að allir íbúar búðanna yrðu fluttir á brott. „Það er ekki hægt að viðhalda einhverju á borð við Idomeni. Það þjónar bara tilgangi smyglara,“ sagði Kyritsis.  

Þá hafa lögreglusveitir þegar byrjað að flytja á brott um 2.000 manns sem hafa hindrað notkun lestarteina á landamærunum í rúman mánuð, en lestarsamgöngur við Grikkland hafa þurft að fara í gegnum Búlgaríu á þeim tíma.

Kyritsis sagði stjórnvöld hafa í hyggju að opna leiðina að nýju, en engar áætlanir væru uppi um að tæma búðirnar algjörlega.

„Það er flóttamönnunum sjálfum fyrir bestu að fara frá þeim hörmungum sem Idomeni er,“ sagði hann. „Járnbrautin verður opnuð svo að lestir geti farið þar í gegn á ný, en aðalatriðið er að flytja fólk þangað sem aðstæður eru mannúðlegri.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert