Ráðast gegn höfuðvígi Ríkis íslams

Íraskar öryggissveitir hafa safnað liði í grennd við Fallujah fyrir …
Íraskar öryggissveitir hafa safnað liði í grennd við Fallujah fyrir áhlaup á borgina. AFP

Forsætisráðherra Íraks, Haider al-Abadi, hefur tilkynnt um upphaf hernaðaraðgerðar til þess að endurheimta borgina Fallujah úr höndum liðsmanna Ríkis íslams. Herinn hefur þegar hvatt óbreytta borgara til að hafa sig á brott frá borginni. Fallujah var fyrsta borgin sem féll í hendur Ríkis íslams árið 2014 og er annað höfuðvígi hryðjuverkasamtakanna í Írak.

„Örlagastund fyrir frelsun Fallujah er runnin upp. Sigurstundin mikla nálgast,“ segir Abadi sem segir liðsmenn Ríkis íslams ekki eiga annarra kosta völ en að taka til fótanna.

Íraskir embættismenn segja að herinn muni halda útgönguleiðum opnum til þess að óbreyttir borgarar geti komist í búðir fyrir utan borgina. Þeir sem geta ekki flúið ættu að hengja hvíta fána utan á hús sín.

Fréttaritari breska ríkisútvarpsins BBC segir að 60 – 90 þúsund óbreyttir borgarar séu inni í borginni. Margir þeirra séu skyldmenni vígamanna Ríkis íslams.

Íraski herinn, lögregla og sjálfboðaliðar hafa umkringt Falljuah. Heimildamenn BBC innan hersins áætla að aðgerðirnar gætu tekið tvær til þrjár vikur. Það geti hins vegar reynst bjartsýni þar sem það tók margar vikur fyrir herinn að ná fullu valdi á Ramadi í desember.

Tapi Ríki íslams Fallujah verður Mosul í norðurhluta Íraks síðasta stóra vígi samtakanna í landinu. Borgin er sú næststærsta í Írak.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert