Stálu milljónum á þremur tímum

Fjölfarin gatnamót í Tókíó. Þjófarnir létu til skarar skríða þar …
Fjölfarin gatnamót í Tókíó. Þjófarnir létu til skarar skríða þar í borg og í 16 öðrum héruðum. AFP

Félagar í alþjóðlegum glæpasamtökum eru grunaðir um að hafa stolið meira en 1,4 milljörðum jena, jafnvirði 1,6 milljarða króna, úr hraðbönkum í Japan á innan við þremur klukkustundum.

Um var að ræða skipulagðar aðgerðir og þúsundir úttekta, en lögregla telur að allt að 100 einstaklingar hafi átt hlut að máli. Enginn hefur verið handtekinn.

Þjófarnir notuðust við fölsuð kreditkort sem voru tengd stolnum reikningsupplýsingum frá banka í Suður-Afríku. Þeir létu til skarar skríða í 1.400 hraðbönkum að morgni sunnudags 15. maí og tóku út 100.000 jen, hámarksúttekt.

Lögregluyfirvöld í Japan hafa óskað eftir svörum frá Suður-Afríku varðandi það hvernig þjófarnir komust yfir reikningsupplýsingarnar.

Talið er að þjófarnir séu mögulega farnir frá Japan, en með því að nota kort sem gefin voru út í öðru landi en þar sem úttektirnar áttu sér stað, og á degi þegar bankar voru lokaðir, gafst þeim nægur tími til að láta sig hverfa áður en upp komst um glæpinn.

Guardian sagði frá.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert