Úrsögn jafngildi „sjálfseyðingu“

David Cameron og George Osborne kynntu í dag skýrslu um …
David Cameron og George Osborne kynntu í dag skýrslu um efnahagslegar afleiðingar úrgöngu Breta úr Evrópusambandinu. AFP

Að velja að yfirgefa Evrópusambandið er að velja „sjálfseyðingu“, ef marka má David Cameron, forsætisráðherra Breta. Cameron segir áframhaldandi aðild hið siðferðilega rétta val, þar sem fjárhagslegar afleiðingar úrsagnar gætu komið illa niður á breskum fjölskyldum.

Cameron og George Osborne fjármálaráðherra kynntu í dag skýrslu ráðuneytisins um efnahagslegar afleiðingar úrsagnar og sögðu hana munu leiða til 3,6 – 6% samdráttar landsframleiðslu, falls pundsins, lægra húsnæðisverðs, 2,8 – 4% launasamdráttar, hálfrar milljónar tapaðra starfa, aukinnar lántöku og hærri verðbólgu.

Forsætisráðherrann sagði ekki um að ræða verstu mögulegu niðurstöðu, heldur gerðu fyrrnefndar spár ráð fyrir að Bretar myndu ná samkomulagi við Evróupsambandið innan tveggja ára, sem væri langsótt markmið.

Cameron sagði ekkert vit í því að kasta þeim árangri sem hefði náðst frá hruninu 2008 fyrir róða. „Hvaða siðferði felst í því að ógna honum í einhverjum óljósum tilgangi? Það væri líkt og að lifa af fall og hlaupa aftur að bjargbrúninni. Sjálfseyðingarvalkosturinn.“

Osborne sagði Breta þurfa að spyrja sig að því hvort þeir væru tilbúnir til að velja niðursveiflu, vísvitandi.

Í skýrslu fjármálaráðuneytisins eru útlistaðar þrjár mögulegar leiðir fram á við ef Bretar velja að ganga úr Evrópusambandinu.

Ein felur í sér að ná samkomulagi við sambandið innan tveggja ára, þar sem kveðið yrði á um úrsögn og endurnýjað samband við Brussel. Önnur að samningur náist ekki við sambandið innan tveggja ára og Bretland þurfi að semja við önnur ríki um áframhaldandi aðild í einhvers konar millibilsástandi. Sú þriðja felur í sér að ekkert samkomulag náist við ESB og að Bretar yfirgefi sambandið samningslaust, og verði að reiða sig á regluverk Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar hvað varðar viðskiptasambönd við önnur ríki.

Þriðja niðurstaðan er sögð sú versta.

Þeir sem styðja úrsögn hafa gagnrýnt málflutning Cameron og Osborne, og segja skýrslu fjármálaráðuneytisins gerða til að hræða fólk. Ian Duncan Smith, fyrrverandi ráðherra í ríkisstjórn Cameron, sakaði Osborne um lygar og líkti honum við Gosa; nef hans lengdist og lengdist.

Ítarlega frétt um málið má finna hjá Guardian.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert