Gat ekki hugsað sér að senda hana eina

Hjónin ásamt syni þeirra Adam
Hjónin ásamt syni þeirra Adam Af Facebook

Egypsk hjón sem voru í París til þess að leita læknisaðstoðar voru meðal þeirra sem voru um borð í farþegaþotu EgyptAir sem hrapaði í Miðjarðarhafið í síðustu viku. Áttu þau þrjú börn sem bíða nú fregna af örlögum foreldra sinna.

Reham Mosad var krabbameinssjúklingur þannig að eiginmaður hennar, Ahmed el Ashry, notaði sparifé sitt til þess að fara með hana til lækna í Frakklandi. Þar voru þau í mánuð en ætluðu heim á miðvikudaginn til þess að hitta börn sín, þau Adam, Salma og Alia.

Eins og kunnugt er náði farþegaþotan aldrei á áfangastað. Hún hvarf af ratsjám aðfaranótt fimmtudags yfir Miðjarðarhafinu. Egypski herinn segist nú hafa fundið brak úr vélinni ásamt líkamspörtum og farangri.

Mosad var aðstoðarkennari í Kaíró og hefur dagblað í borginni birt grein um hjónin. Þar segir að el Ashry hafi ákveðið að gera allt sem hann gat til þess að sefa þjáningar konu sinnar og lengja líf hennar. Fóru þau til Parísar í læknismeðferð þrátt fyrir að þeim hafi verið ráðlagt að halda sig heima.

Í yfirlýsingu frá skóla barna þeirra kemur fram að el Ashry hafi ekki getað hugsað sér að láta konuna sína fara eina til Frakklands.

Frétt NBC.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert