Vill ekki endurskoða ákærur gegn Zuma

Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku.
Jacob Zuma, forseti Suður-Afríku. AFP

Ríkissaksóknari Suður-Afríku segist ætla að áfrýja niðurstöðu dómstóls þar í landi um að endurskoða eigi ákærur gegn Jacob Zuma, forseta landsins, um spillingu.

Saksóknarinn felldi niður ákærurnar, sem eru 783 talsins, aðeins fáeinum vikum fyrir forsetakosningarnar árið 2009 þar sem Zuma var kjörinn forseti.

Dómarinn Aubrey Ledwaba komst hins vegar að þeirri niðurstöðu í síðasta mánuði að saksóknarinn ætti að endurskoða ákvörðun sína og hefja málið, þar á meðal rannsókn þess, upp á nýtt. Ákvörðunin hefði verið „órökrétt“.

Ákærurnar varða samninga við vopnasala upp á milljarða dala, en Zuma hefur þráfaldlega neitað ásökununum og sagst ekki hafa gert neitt rangt.

Sérstök rannsóknarnefnd komst að þeirri niðurstöðu í apríl að engar vísbendingar væru um spillingu eða önnur svik af hálfu suður-afrískra embættismanna við samningsgerðina.

Ríkissaksóknarinn, Shaun Abrahams, sagði að saksóknarar ættu að gæta þagmælsku um hvort þeir hæfu rannsókn mála. Málið varðaði aðskilnað valds og að niðurstaðan gæti haft alvarlegar afleiðingar. Hyggst hann áfrýja niðurstöðunni til æðsta dómstóls landsins.

Hann sagðist vinna starf sitt „án ótta, greiðasemi eða fordóma“ og bætti við að enginn hefði óeðileg áhrif á ákvarðanir sínar, að því er segir í frétt breska ríkisútvarpsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert