116 lík grafin upp úr fjöldagröf

Ættingjar horfinna einstaklinga og fulltrúar mannréttindasamtaka bíða á vettvangi og …
Ættingjar horfinna einstaklinga og fulltrúar mannréttindasamtaka bíða á vettvangi og vonast eftir upplýsingum um þá sem í gröfinni liggja. AFP

Yfirvöld í Mexíkó hófu í gær að grafa upp lík úr fjöldagröf í Morelos-fylki, en líkum 116 einstaklinga hafði verið komið fyrir í tveimur tíu metra djúpum holum. Uppgötvaðist fjöldagröfin, sem er í bænum Tetelcingo, í nóvember á síðasta ári.  

Embætti saksóknara segir rannsókn enn í gangi, en vera kunni að starfsmenn líkhúsa hafi losað sig við lík þaðan og komið þeim fyrir í gröfinni. Búist er við að uppgröfturinn taki um fimm daga.   

Eiturlyfjatengdir glæpir og ofbeldisverk eru óvíða algengari en í Morelos.  

Vitað er að að minnsta kosti 20.000 manns hafa horfið í Mexíkó og telja Sameinuðu þjóðirnar og ýmis mannréttindasamtök fjölda horfinna raunar mun meiri.

Gera á erfðarannsóknir á öllum líkunum og reyna að bera kennsl á hvern og einn. Að sögn Javiers Perez Duron, ríkissaksóknara Mexíkó, er rannsókn í gangi á því hver beri ábyrgð á fjöldagröfinni. „Það er mjög mikilvægt að fá upplýsingar um endanlegan fjölda þeirra sem liggja í gröfinni og veita þeim viðeigandi útför,“ sagði Duron.

Sérfræðingar UAEM-háskólans í Morelos hafa verið kallaðir til aðstoðar við að vinna úr DNA-prófunum. „Við höfum samúð með endalausri baráttu ættingja og samtaka fórnarlamba þeirra rúmlega 30.000 einstaklinga sem hafa horfið í þessu landi,“ sagði Alejandro Vera, rektor UAEM, en Vera sett hefur á fót sérstaka áætlun til að aðstoða þá sem eiga ættingja sem hafa horfið í eiturlyfjatengdum glæpum í Mexíkó.

Búist er við að uppgröfturinn taki um fimm daga.
Búist er við að uppgröfturinn taki um fimm daga. AFP
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert