Dregur úr dauðsföllum á Miðjarðarhafi

Síðasta sólarhring var 2.700 hælisleitendum, sem voru á ferð með …
Síðasta sólarhring var 2.700 hælisleitendum, sem voru á ferð með ýmsum sjóförum, bjargað á leiðinni frá Líbýu til Evrópu. AFP

Töluvert hefur dregið úr þeim fjölda flóttamanna og hælisleitenda sem látið hafa lífið á leið sinni yfir Miðjarðarhafið frá 2013, að sögn Alþjóðastofnunar innflytjendamála (International Organization for Migration (IOM)).  

Það sem af er þessu ári hafa 1.370 flóttamenn og hælisleitendur látið lífið á ferð sinni yfir hafið til Evrópu. Eru þetta 24% færri en fórust á sama tíma í fyrra, þegar 1.792 létu lífið.

Það sem af er maímánuði hafa 13 flóttamenn og hælisleitendur farist á ferð sinni yfir Miðjarðarhafið, en enginn þeirra var á leiðinni milli Tyrklands og Grikklands samkvæmt upplýsingum IOM.

Til samanburðar má geta þess að 330 hælisleitendur og flóttamenn létust á ferð sinni yfir hafið í maí  2014 og 95 í sama mánuði í fyrra.

Þetta felur í sér „umtalsverða fækkun“ sagði Joel Millman, talsmaður IOM, á blaðamannafundi í Genf. Sérstakt fagnaðarefni væri að enginn hefði farist á leiðinni milli Grikklands og Tyrklands, en alls hefðu 400 flóttamenn og hælisleitendur drukknað á þeirri leið fyrstu fjóra mánuði ársins.

„Við rekjum vissulega þessa fækkun dauðsfalla til þess hversu mikið hefur dregið úr ferð flóttamanna frá Tyrklandi til Grikklands,“ sagði Millman.  Evrópusambandið og Tyrkland gerðu samning sín á milli í mars sl. sem m.a. felur í sér að allir flóttamenn sem koma til Grikklands verða sendir aftur til Tyrklands.

Komum flóttamanna og hælisleitenda til Grikklands fækkaði enda um 90% í apríl miðað við mánuðinn á undan, en í apríl komu 3.360 til landsins í stað 26.971 í marsmánuði.

Millman sagði auknar aðgerðir líbýsku strandgæslunnar við að stöðva ferð hælisleitenda yfir hafið þó einnig hafa sitt að segja, sem og aukna viðleitni til björgunaraðgerða. „Bara síðasta sólarhringinn var rúmlega 2.700 flóttamönnum bjargað af ýmsum bátum og skipum á leið sinni frá Líbýu til Evrópu," sagði Millman.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert