„Ég vanmat óstöðugleikaöflin“

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands.
Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands. AFP

Tony Blair, fyrrverandi forsætisráðherra Bretlands, segist hafa vanmetið kraftinn í óstöðugleikaöflunum sem leystust úr læðingi við innrásina í Írak. Þetta kom fram á fundi á vegum Prospect Magazine sem haldinn var í Westminster dag.

„Það er ljóst að við vanmátum hressilega þau öfl sem leystust úr læðingi á svæðinu og reyndu að notfæra sér tækifærið sem skapaðist þegar stjórn landsins var sett af. Það er lærdómurinn af þessu. Lærdómurinn er ekki flókinn heldur einfaldur. Þegar þú fjarlægir einræðisherra þá birtast þessi óstöðugleikaöfl, hvort sem um er að ræða al-Kaída, súnní eða sjía,“ sagði Blair.

Hann sagðist einnig búa yfir mun meiri þekkingu á ástandinu í Mið-Austurlöndum í dag en hann gerði þegar hann var forsætisráðherra.

Um þróunina í Mið-Austurlöndum í kjölfar arabíska vorsins sagði Blair: „Ég var einn af þeim sem sögðu að við ættum að fara varlega. Hvað lærðum við af Írak? Við lærðum að þegar einveldi eru sett af hefst nýr kafli þar sem eyðileggingaröfl og önnur áhrifamikil öfl stíga fram og reyna að skapa óstöðugleika.“ 

Segist hann í dag vera hrifnari af því að vesturlönd styðji við pólitíska þróun frekar en hernaðaraðgerðir. 

Í júlí kemur skýrsla frá svokölluðum Chilcot-hópi sem fékk það verkefni að rannsaka innrásina í Írak. Blair viðurkennir að hann búist við að fá gagnrýni á sig í skýrslunni, en vill ekki biðjast fyrirgefningar á þætti sínum.

Hann viðurkennir að tímabundin ríkisstjórn Maliki sem komst til valda í Írak árið 2006 hafi átt þátt í uppgangi Ríkis íslams. Hins vegar segir hann að rætur Ríkis íslams megi rekja lengra aftur í tímann og að uppgangur þeirra sé ekki á ábyrgð neinnar ríkisstjórnar.

Sjá frétt The Guardian.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert