Fyrirsæta myrti kærastann „óvart“

Andrew Bush og Maria Kukucova á meðan allt lék í …
Andrew Bush og Maria Kukucova á meðan allt lék í lyndi.

Réttað er nú yfir slóvakískri fyrirsætu sem sökuð er um að hafa myrt fyrrverandi kærasta sinn, breskan milljarðamæring, á heimili hans á Spáni árið 2014. Konan, sem heitir Maria Kukucova og er 26 ára gömul, segist hafa skotið manninn „óvart“ þegar hún reyndi að komast í burtu frá honum.

Saksóknarar segja Kukucova hafa skotið Andrew Bush tvisvar sinnum í höfuðið og einu sinni í öxlina á heimili hans í strandarbænum Estepona 5. apríl 2014. Farið er fram á 20 ára fangelsisdóm yfir henni. 

Kukucova sagði fyrir dómi í gær að hún vissi ekki hversu mörgum skotum hafi verið hleypt af byssunni þar sem hún hafi tímabundið misst heyrn eftir fyrsta skotið. 

„Ég vildi ekki meiða hann,“ sagði Kukucova grátandi fyrir dóminum og útskýrði að Bush hefði haldið sér fastri og hún hafi verið að reyna að losna úr greipum hans þegar skotunum var hleypt af byssunni. 

Réttarhöldin hófust í gær í Malaga á Spáni, en gert er ráð fyrir að þau muni standa í a.m.k. þrjá daga. 

Bush var 48 ára gamall og átti skartgripabúð í Bretlandi, þar sem Kukucova hafði starfað, áður en hann flutti til Spánar. Parið hætti saman um mánuði áður en Bush lést, en þá höfðu þau verið saman í yfir tvö ár. 

Kukucova segist hafa verið ein í húsi Bush í tvo daga að taka saman eigur sínar, áður en hann kom til baka úr ferðalagi með nýrri kærustu sinni, hinni 20 ára gömlu Mariu Korotaeva. Þegar þau komu í húsið og sáu Kukucova þar sagði Bush nýju kærustunni að fara aftur inn í bíl að hennar sögn, en fór svo sjálfur inn í húsið þar sem hann og Kukucova rifust. 

Korotaeva er lykilvitni í málinu, en hún segist hafa heyrt skothvellina frá húsinu nokkrum mínútum eftir að þau Bush og Kukucova fóru inn. Eftir það kom Kukucova hlaupandi út og skipaði Korotaeva að fara úr bílnum, sem hún keyrði svo burtu á. Í kjölfarið flúði hún til Slóvakíu, en gaf sig svo fram við lögreglu fjórum dögum síðar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert