Gáfu sig fram fyrir að taka fóstureyðingarpillu

Konur krefjast rétti til að ráða yfir eigin líkama á …
Konur krefjast rétti til að ráða yfir eigin líkama á götum Belfast í lok apríl. AFP

Þrjár konur hafa gefið sig fram við lögreglu í Derry á Norður-Írlandi og krafist þess að verða ákærðar fyrir að hafa orðið sér úti um og tekið ólöglegar fóstureyðingarpillur. Með þessu vilja konurnar mótmæla lögum um fóstureyðingar í landinu sem eru ein þau ströngustu í Evrópu.

Tugir stuðningsmanna kvennanna söfnuðust saman fyrir utan lögreglustöðina í Derry þegar þær gáfu sig fram. Þær vonast til þess að úr verði réttarhöld sem sýni fram á hversu forneskjuleg lög um glæpi gegn manneskjunni frá 1861 eru en á þeim byggist bann við fóstureyðingum í landinu nema við gríðarlega sjaldgæfar kringumstæður, að því er kemur fram í frétt The Guardian.

Mikil reiði braust út á meðal stuðningsmanna réttinda kvenna í síðasta mánuði þegar 21 árs kona var ákærð fyrir að kaupa á netinu töflur sem áttu að koma af stað fósturláti. Málið er það fyrsta sinnar tegundar svo vitað sé. Konan játaði sök og fékk þriggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Verjandi hennar sagði að væri hún búsett hvar sem er annars staðar á Bretlandi hefði hún ekki verið sótt til saka. 

Önnur kona á að koma fyrir dómara í júní en talið er að það sé móðir sem varð sér úti um slíkar töflur fyrir dóttur sína.

Þurfa að fara úr landi og greiða sjálfar fyrir aðgerð

Ein kvennanna þriggja sem gáfu sig fram við lögreglu, hin 72 ára gamla Diana King, segir ófyrirgefanlegt hvernig komið sé fram við konur. Hún ætlar að verja sig með þeim rökum að töflurnar séu ekki eiturefni heldur séu þær á lista Alþjóðaheilbrigðisstofnunarinnar um nauðsynleg lyf.

„Við vitum að það er möguleiki á að við förum í fangelsi en við munum segja að við teljum okkur ekki hafa gert neitt rangt,“ sagði King sem ákvað að grípa til aðgerða vegna reiði sinnar yfir dómnum yfir ungu konunni í síðasta mánuði.

Norðurírskar konur sem vilja fara í fóstureyðingu hafa fárra kosta völ. Þær geta farið til Englands eða Wales en þær þurfa að greiða fyrir aðgerðina sjálfar þar sem breskar sjúkratryggingar greiða ekki fyrir fóstureyðingar fyrir norðurírska íbúa. Til viðbótar þurfa þær að greiða allan ferðakostnað og uppihald. Engin viðurlög eru við því að fara úr landi til að komast í fóstureyðingu.

Hinn kosturinn hefur verið að kaupa töflur í gegnum netið. Þær konur sem hafa ekki efni á að fara úr landi og greiða fyrir aðgerðina eiga hins vegar á hættu að verða sóttar til saka fyrir að kaupa eða nota töflurnar. Réttindasamtök hafa þannig bent á að ein lög gildi fyrir ríka en önnur fyrir snauða í þessum efnum.

Frétt The Guardian

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert