Grikkir fá frekari neyðarlán

Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands.
Alexis Tsipras, forsætisráðherra Grikklands. AFP

Talið er líklegt að fjármálaráðherrar evruríkjanna samþykki á fundi sínum í dag að veita Grikkjum frekari neyðarlán. Þeir hafa þó ekki náð saman um að fella niður skuldir gríska ríkisins að hluta, eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn hefur kallað eftir.

Grísk stjórnvöld hafa samþykkt að ráðast í umfangsmiklar umbætur að kröfu lánardrottna landsins, Evrópusambandsins, Evrópska seðlabankans og Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, en umbæturnar eru skilyrði þess að Grikkir fái frekari neyðarlán frá lánardrottnunum.

Þeir þurfa nauðsynlega á lánunum að halda til þess að geta staðið skil á afborgunum af eldri lánum.

Michael Noonan, fjármálaráðherra Írlands, segist eiga von á því að samkomulag náist við grísk stjórnvöld í dag, en þó þurfi á næstu vikum að fara yfir ýmis tæknileg atriði.

Ekki hefur verið ákveðið hver upphæð lánanna verður en heimildir Reuters herma að hún verði um átta til tólf milljarðar evra.

„Það mikilvægasta er að ljúka endurskoðuninni og samþykkja frekari lánveitingar til þess að gefa Grikkjum smá ráðrúm. Við þurfum ekki aðra lausafjárkreppu,“ sagði Peter Kazimir, fjármálaráðherra Slóvakíu, við fréttamenn í dag.

Grikkir þurfa að standa skil á stórum afborgunum af lánum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og Evrópska seðlabankans um miðjan júlímánuð.

Gríska þingið samþykkti um helgina frek­ari niður­skurðaraðgerðir og skatta­hækk­an­ir að kröfu lán­ar­drottna Grikk­lands. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert