Harðlínumaður yfir eftirlitsnefnd

Ahmad Jannati, æðstiklerkur og nýr formaður sérfræðiráðs Írans.
Ahmad Jannati, æðstiklerkur og nýr formaður sérfræðiráðs Írans. AFP

Íranska sérfræðiráðið sem hefur eftirlit með störfum æðsta leiðtoga landsins og velur arftaka hans hefur valið harðlínumanninn og æðstaklerkinn Ahmad Jannati sem nýjan formann sinn. Jannati var einn örfárra harðlínumanna sem náðu kjöri í kosningum í febrúar þar sem umbótasinnar fóru með sigur af hólmi.

Enginn umbótasinni eða hófsamur frambjóðandi bauð sig fram í embættið og því var það hinn 89 ára gamli Jannati sem hreppti hnossið.

Ali Khamenei, æðstiklerkur Írans og æðsti leiðtogi, er 76 ára gamall. Falli hann frá er það sérfræðiráðsins að velja eftirmann hans. Kjörtímabil fulltrúa í því er átta ár. Æðsti leiðtogi Írans hefur úrslitavald í öllum opinberum málum í landinu og er mun valdameiri en forsetinn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert