Skógarhögg hafið þrátt fyrir mótmæli

Axirnar eru farnar á loft í Bialowieza-frumskóginum í Póllandi. Myndin …
Axirnar eru farnar á loft í Bialowieza-frumskóginum í Póllandi. Myndin er úr safni. AFP

Umdeild grisjun Bialowieza-frumskógarins í Póllandi hófst í dag þrátt fyrir hörð mótmæli náttúruverndarsamtaka, vísindamanna og fulltrúa Evrópusambandsins. Til stendur að höggva meira en 180.000 rúmmetra trjáa á þeim svæðum skógarins sem eru utan þjóðgarðs.

Aðeins hluti Bialowieza-skógarins, sem er einar síðustu leifar mikils skógar sem þakti stóran hluta Evrópu, er innan marka þjóðgarðs. Skógurinn teygir sig einnig yfir til Hvíta-Rússlands en þar er hann allur skilgreindur sem þjóðgarður.

Stjórnvöld halda því fram að grisjunin beinist að barkarbjöllufaraldri sem hefur geisað í skóginum. Umhverfisverndarsamtök og vísindamenn hafa á móti bent á að bjöllurnar ógni ekki lífríki skógarins og hann hafi staðið af sér ágang þeirra áður. Þá sé um það bil helmingur þess skógar sem á að höggva ekki af þeirri tegund sem bjöllurnar herja á.

Um 20.000 dýrategundir eiga búsvæði í Bialowieza þar sem vistkerfið hefur verið óraskað í meira en 10.000 ár. Þeirra á meðal eru hundruð evrópskra vísunda sem eru stærsta spendýrategund álfunnar. Hæstu tré Evrópu er einnig að finna í frumskóginum, til dæmis fimmtíu metra há furutré og fjörutíu metra háar eikur og askar.

Bialowieza er á heimsminjaskrá Unesco. Pólsk stjórnvöld hafa heitið því að ekki verði gengið á vernduð svæði skógarins. Sendinefnd frá Unesco er væntanleg til Póllands í byrjun júní til að leggja mat á ástandið.

Fyrri frétt mbl.is: Síðasti frumskógur Evrópu í hættu

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert