Spilavítisborg bjargað frá gjaldþroti

Fjárhættuspil hafa verið ær og kýr Atlantic-borgar um árabil. Hallað …
Fjárhættuspil hafa verið ær og kýr Atlantic-borgar um árabil. Hallað hefur undan fæti þar hin síðari ár. AFP

Samkomulag náðist á ríkisþingi New Jersey í gær um að forða Atlantic-borg, sem þekkt er fyrir spilavíti sín, frá gjaldþroti. Síharðnandi samkeppni hefur orðið til þess að fjögur af tólf spilavítum borgarinnar hafa lagt upp laupana og hefur borgarsjóður tapað miklum skatttekjum í kjölfarið.

Báðar deildir ríkisþingsins eiga enn eftir að samþykkja samkomulagið en það kveður á um að Atlantic-borg fái 150 daga til að leggja fram hallalausa fjármálaáætlun fyrir næstu fimm árin sem gildi strax fyrir næsta ár.

Chris Christie, ríkisstjóri New Jersey-ríkis og einn helsti stuðningsmaður Donalds Trump, þarf einnig að skrifa undir samkomulagið til að það öðlist gildi. Hann hefur verið andsnúinn samkomulagi af þessu tagi og hefur viljað að ríkið takið yfir stjórn borgarinnar til að koma fjármálum hennar í lag.

Trump hefur fjórum sinnum rekið fyrirtæki í Atlantic-borg í gjaldþrot og dró sig alfarið frá borginni árið 2009. Hann hefur engu að síður stært sig af því að hafa komist í miklar álnir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert