Tók engar krappar beygjur

AFP

Farþegaþota EgyptAir, sem fórst í Miðjarðarhafi í síðustu viku, sveigði ekki né breytti um stefnu áður en hún hvarf af ratsjám. Þetta er haft eftir egypskum embættismanni í frétt breska ríkisútvarpsins BBC.

Farþegarþotan, sem var af gerðinni Airbus A320, var á leið frá París, höfuðborg Frakklands, til Kaíró, höfuðborar Egyptalands, þegar hún hvarf á fimmtudaginn í síðustu viku með 66 manns um borð. Gríski varnarmálaráðherrann Panos Kammenos hefur áður lýst því yfir að þotan hefði tekið tvær krappar beygjur áður en hún hafi misst hæð og loks hrapað.

Þessu hafnar Ehab Azmy, háttsettur embættismaður á sviði flugmála í Egyptalandi. Haft er eftir honum að farþegaþotan hafi flogið í eðlilegri hæð í 37 þúsund fetum þegar hún hvarf af ratsjám. Flugumferðarstjórar ræddu við flugmanninn þegar hann var í grískri lofthelgi og virtist allt í góðu lagi. Þegar þotan var á leið í egypska lofthelgi reyndu þeir að hafa samband aftur en án árangurs.

Egyptar segja að allt hafi verið í lagi með farþegaþotuna þegar hún hafi komið í egypska lofthelgi. Fylgst hafi verið með þotunni í eina til tvær mínútur áður en hún hafi horfið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert