Trudeau aldrei vinsælli

Justin Trudeau.
Justin Trudeau. AFP

Vinsældir forsætisráðherra Kanada, Justins Trudeau, hafa náð nýjum hæðum samkvæmt niðurstöðum nýrrar skoðanakönnunar sem birtar voru í dag. Könnunin var gerð símleiðis og náði til eitt þúsund Kanadamanna yfir fjögurra vikna tímabil en samkvæmt henni vilja 54% hafa Trudeau í stóli forsætisráðherra landsins.

Fram kemur í frétt AFP að leiðtogar stærstu stjórnmálaflokkanna, Íhaldsflokksins og Nýja lýðræðisflokksins, nytu stuðnings 16% og 9% í forsætisráðherraembættið, en flokkarnir tveir hefðu verið nær höfuðlaus her frá því að Stephen Harper, fyrrverandi forsætisráðherra og leiðtogi Íhaldsflokksins, sagði af sér í kjölfar kosningaósigurs flokksins og vantraust var samþykkt á fyrrverandi leiðtoga Nýja lýðræðisflokksins, Thomas Mulcair, í apríl.

Mulcair fer enn fyrir Nýja lýðræðisflokknum en nýr leiðtogi verður kosinn á næsta ári en Rona Ambrose er starfandi leiðtogi kanadískra íhaldsmanna.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert