Vandi uppgröft fjöldagrafa

Suharto herforingi lét öryggissveitir sínar taka þátt í fjöldamorðum á …
Suharto herforingi lét öryggissveitir sínar taka þátt í fjöldamorðum á að minnsta kosti hálfri milljón meintra kommúnista og stuðningsmönnum þeirra. Reuters

Mannréttindasamtök brýna fyrir indónesískum stjórnvöldum að fá réttarmeinafræðinga til þess að grafa upp lík úr fjöldagröfum þar sem talið er að fórnarlömb fjöldamorða á kommúnistum á 7. áratug síðustu aldar hvíli. Það sé nauðsynleg til þess að tryggja varðveislu sönnunargagna og svo hægt sé að bera kennsl á líkin.

„Fjöldagrafir eru lagalega séð vettvangur glæpa. Það ætti að umgangast þær í samræmi við það,“ segir Andreas Harsono, rannsakandi í Indónesíu fyrir Human Rights Watch. Samtökin hafa ritað þarlendum stjórnvöldum bréf þessa efnis.

Hreinsanir sem áttu sér stað við upphaf valdatíðar Suharto herforingja frá 1965 til 1966 eru ein verstu fjöldamorð síðustu aldar. Þá myrtu yfirvöld að minnsta kosti hálfa milljón meintra kommúnista og stuðningsmanna þeirra. Launhelgi hefur lengið legið yfir morðunum í Indónesíu. Stjórn Suharto sagði að morðin hefðu verið nauðsynleg til að hreinsa landið af kommúnisma.

Fjöldamorðin hófust eftir að Suharto hafði barið niður valdaránstilraun 1. október árið 1965 sem hann kenndi kommúnistum um. Staðbundnar sveitir vopnaðra manna frömdu morðin með stuðningi öryggissveita ríkisins. Suharto stjórnaði landinu með harðri hendi í 32 ár og var einn helsti bandamaður vesturveldanna í álfunni.

Ríkisstjórn Indónesíu studdi opinberar umræður um fjöldamorðin í fyrsta skipti í síðasta mánuði. Í kjölfar þeirra skipaði Joko Widodo, forseti landsins, öryggismálráðherranum að hefja rannsókn á þeim. Síðan þá hafa hópar aðgerðasinna sent inn upplýsingar um 122 staði á Jövu og Súmötru þar sem þeir segja að fjöldagrafir sé að finna. Öryggismálaráðherrann hefur sagt að yfirvöld muni brátt opna þær.

Human Rights Watch hvetur erlendar ríkisstjórnir og Sameinuðu þjóðirnar til þess að styðja rannsóknir á fjöldagröfunum og alþjóðlegir aðilar hjálpi til við að varðveita og greina sönnunargögnin. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert