Bannað að grínast með þjóðsönginn

Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti.
Vladimír Pútín Rússlandsforseti. Myndin tengist fréttinni ekki með beinum hætti. AFP

Hæstiréttur Rússlands hefur greitt götu lagafrumvarps sem felur í sér að einstaklingar sem hæðast að þjóðsöng landsins gætu þurft að sæta fangelsisvist í allt að eitt ár. Með nýjum lögum bætist þjóðsöngurinn í hóp með þjóðfána landsins og skjaldarmerki sem nú þegar er saknæmt að hæðast að skv. rússneskum lögum.

Frá þessu er greint á vef BBC en þar segir að þeir sem „viljandi afskræma textann eða sönginn opinberlega, á samfélagsmiðlum eða á netinu“ gætu þurft að dúsa í fangelsi í allt að eitt ár. Í dag er þó óheimilt að hæðast að laginu og eiga þeir sem gera grín að laginu í hættu á að vera sektaðir á bilinu frá rúmlega 5 þúsund krónum upp í tæplega 300 þúsund (45 til 2.200 bandaríkjadalir).

Neyðarlegt atvik á Krímskaganum

Stjórnarþingmennirnir tveir sem flytja frumvarpið segja að hvatningin að baki lagabreytingunni sé neyðarlegt atvik sem kom upp 8. apríl sl. í Sebastopol á Krímskaga. Kalla þeir atvikið skandal en háðsútgáfa var spiluð af laginu á ríkisstjórnarfundi sem haldinn var á svæðinu. Samkvæmt upplýsingum frá lögreglu áttaði sá sem spilaði myndbandið sig ekki á því að um væri að ræða háðsútgáfu af laginu en lagið hafði hann fundið á netinu.

„Hugsið ykkur þessar aðstæður,“ sagði Vladimir Tyunin, embættismaður í innanríkisráðuneytinu. „Borgarstjórinn rís á fætur og á skjánum á bak við hann er þetta efni,“ hélt hann áfram í samtali við rússneska fjölmiðla. Í textanum var Rússlandi lýst sem klikkuðu, þrælslegu og montnu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert