Hælisleitendur fluttir á brott úr Idomeni búðunum

Fólkið bar eigur sínar í stórum ruslapokum og jafnvel barnakerrum.
Fólkið bar eigur sínar í stórum ruslapokum og jafnvel barnakerrum. AFP

Lögregla í Grikklandi heldur í dag áfram að flytja flóttamenn og hælisleitendur á brott úr flóttamannabúðunum við Idomeni, við landamæri Grikklands og Makedóníu, þar sem þúsundir hafa dvalið við ömurlegar aðstæður síðustu mánuði.

AFP-fréttastofan hefur eftir heimildamanni innan lögreglunnar að þeir vonist í dag til að flytja sama fjölda fólks úr búðunum og í gær, þegar um 2.000 manns voru fluttir með rútum í nýjar flóttamannabúðir í nágrenni Þessalóníku, sem er um 80 km sunnar.

Um 8.400 manns hafa dvalið við ömurlegar aðstæður í búðunum sem hafa orðið eins konar táknmynd mannlegra þjáninga og þeirrar ringulreiðar sem fylgt hefur mesta flóttamannastraumi í Evrópu frá síðari heimsstyrjöldinni.

Um sjö hundruð lögreglumenn hafa tekið þátt í aðgerðunum sem hafa gengið vel fyrir sig að sögn lögreglu.

Halda ólíkum þjóðernum aðskildum

Flestir þeirra sem hafast við í Idomeni-búðunum eru að flýja stríðsástand í heimalandi sínu í Sýrlandi, Írak eða Afganistan. Meðal þeirra sem fluttir voru úr búðunum í gær voru 662 Sýrlendingar, 1.273 Kúrdar og 96 Jasídar.  

„Við reynum að halda ólíkum þjóðernum aðskildum til að forðast núning á milli þeirra,“ sagði annar heimildamaður lögreglunnar við AFP.

Um 100 hælisleitendur og flóttamenn neituðu hins vegar að fara inn í nýju flóttamannabúðirnar og héldu þess í stað gangandi niður í miðbæ Þessalóníku.

Hælisleitendur bíða í röð eftir að verða sendir í búðir …
Hælisleitendur bíða í röð eftir að verða sendir í búðir nærri Þessalóníku. AFP

Einungis grískir ríkisfjölmiðlar hafa fengið að fylgjast með aðgerðunum og á þriðjudag sýndu gríska ríkissjónvarpsstöðin ERT og ríkisfréttastöðin ANA myndir af hælisleitendum sem biðu þess að komast um borð í rútur áður en þeim var ekið á brott.

Margir báru eigur sínar í stórum ruslapokum á meðan aðrir hlóðu þeim upp í barnakerrur. Telja stjórnvöld að það taki viku að flytja alla á brott úr Idomeni-búðunum.

Eins og peð í skák 

„Þetta gengur vel, mögulega betur en við áttum von á. Hælisleitendurnir eru þreyttir og búast ekki lengur við að landamærin verði aftur opnuð,“ sagði heimildamaður innan lögreglunnar. 

Oxfam-samtökin hafa hvatt stjórnvöld í Aþenu til að tryggja að hælisleitendurnir hafi fullan aðgang að upplýsingum og læknisaðstoð. „Það er farið með varnarlaust fólk, sem að stórum hluta eru konur og börn, eins og peð í skák,“ sagði í yfirlýsingu frá Oxfam.

Hópar fólks söfnuðust saman og mótmæltu brottflutningum hælisleitenda og flóttamanna …
Hópar fólks söfnuðust saman og mótmæltu brottflutningum hælisleitenda og flóttamanna úr Idomeni-búðunum. AFP

Landamæri Grikklands og Makedóníu hafa verið lokuð frá því um miðjan febrúar, þegar stjórnvöld í Makedóníu og fleiri Balkanlöndum lokuðu landamærum sínum að Grikklandi til að stöðva flóttamannastrauminn.

Brottflutningarnir nú koma eftir harðan vetur þar sem margir reyndu að komast yfir landamærin til Makedóníu. Um 12.000 manns voru í Idomeni-flóttamannabúðunum þegar mest var, en búðunum var upphaflega ætlað að hýsa tímabundið 2.500 manns á leið þeirra yfir landamærin.

Yfirvöld í Grikklandi hafa sagt að 6.000 rými standi til boða fyrir flóttamenn í búðum í nágrenni Þessalóníku og víðar, en margir hælisleitendanna eru tregir til að flytja í nýjar búðir eða dvelja fjarri Aþenu þar sem þá geti orðið erfiðara að komast í samband við smyglara sem gætu komið þeim til annarra Evrópuríkja.

Talið er að um 54.000 flóttamenn séu nú strandaglópar í Grikklandi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert