Raðnauðgari hlaut hámarksrefsingu

Af vef Wikipedia

Norskur karlmaður á fertugsaldri hefur verið dæmdur til hámarksrefsingar, 21 árs fangelsis, fyrir að hafa nauðgað 17 konum á 15 ára tímabili. Maðurinn, sem þekktur er úr sjónvarpi sem dansari og áhættuleikari hlaut þar með sömu refsingu og meðal annars fjöldamorðinginn Anders Breivik.

Hámarksrefsing samkvæmt norskum lögum er 21 árs fangelsi. Mun hann að lágmarki sitja inni í 10 ár en auk þess er möguleiki á að lengja fangelsisvist hans, telji dómstólar að hann sé enn þá hættulegur samfélaginu þegar fangelsisvist hans er að ljúka. Gæti því farið svo að hann sitji inni alla sína ævi.

Málið vakti mikla athygli í Noregi enda hafði maðurinn tekið þátt í sjónvarpsþættinum Norske talenter (Norway's Got Talent) sem dansari. 

Er hann meðal annars dæmdur fyrir að hafa nauðgað breskri konu sem gisti ásamt tveimur börnum sínum heima hjá honum eftir að hafa kynnst honum í gegnum „couch-surfing“ heimasíðu. Maðurinn á að hafa boðið henni áfengi og nýtt sér síðan ölvun hennar. 

Hann var einnig dæmdur fyrir að hafa nauðgað sambýliskonu sinni til nokkurra mánaða endurtekið. Talið er að brotin gegn henni hafi verið um 400 talsins. 

Var maðurinn einnig dæmdur fyrir að hafa nauðgað samstarfskonu sinni sem starfaði tímabundið á sama vinnustað og hann á Spáni vorið 2013. 

Maðurinn starfaði áður sem nektardansari. Á hann að hafa framið eina nauðgun á konu eftir sýningu sem hann hélt í bænum Hønefoss árið 2012. 

Vörn mannsins fyrir dómi byggði á því að hann taldi konurnar vera að hefna sín á honum. Sagði hann þær ástfangnar af honum og að þær hafi tekið því illa þegar hann tjáði þeim að hann hefði ekki áhuga á að vera í föstu sambandi. 

Verjendur mannsins kröfðust refsilækkunar til handa manninum vegna ofbeldis sem hann hefur orðið fyrir innan veggja fangelsisins en fyrir liggur að hann hefur orðið fyrir sex líkamsárásum af hendi samfanga sinna. Einn samfangi hefur verið ákærður fyrir slíka árás á hann. Sögðu þeir að „einhliða fréttaflutningur fjölmiðla“ hafi orðið til þess að líf hans innan veggja fangelsisins sé óbærilegt. Sú krafa náði ekki fram að ganga.

Fyrir dómi kom fram í skýrslu sálfræðings að maðurinn sé með takmarkaða tilfinningagreind og eigi erfitt með að skilja tilfinningar annarra. Hann hafi þar að auki mörg einkenni siðblindu. Sem dæmi er nefnt að hann eigi erfitt með að segja sömu frásögn tvisvar án þess að breyta henni í seinna skiptið. 

Sjá frétt Dagbladet.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert