Shell fækkar störfum

Störfum hjá Shell hefur fækkað um 12.500 frá því í …
Störfum hjá Shell hefur fækkað um 12.500 frá því í upphafi árs 2015. AFP

Orkurisinn Royal Dutch Shell áformar að fækka störfum um að minnsta kosti 2.200 vegna lágs olíuverðs og í kjölfar yfirtöku á samkeppnisaðilanum BG Group. Í yfirlýsingu segir að með þessu sé stefnt að því að tryggja samkeppnishæfni Shell en fyrirtækið gerir ráð fyrir að olíuverð muni haldast lágt til lengri tíma.

Þegar þessar aðgerðir eru yfirstaðnar hefur starfsmönnum Shell og verktökum fækkað um 12.500 frá upphafi síðasta árs. Störfin sem um ræðir tengjast starfsemi fyrirtækisins í Norðursjó og víðar.

„Þetta eru erfiðir tímar fyrir iðnaðinn og við verðum að taka fleiri erfiðar ákvarðanir til að tryggja samkeppnishæfni Shell í yfirstandandi langvarandi niðursveiflu,“ segir Paul Goodfellow, varaforseti Shell í Bretlandi og á Írlandi.

Fyrr í þessum mánuði tilkynnti fyrirtækið um 89% tekjusamdrátt á fyrsta ársfjórðungi. Þá var greint frá því að fjárfesting yrði minni en gert hafði verið ráð fyrir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert