Talibanar velja sér nýjan leiðtoga

Vígamenn talibana. Myndin er úr safni.
Vígamenn talibana. Myndin er úr safni. AFP

Afganskir talibanar hafa tilkynnt að Mawlawi Haibatullah Akhundzada sé nýr leiðtogi þeirra í stað Mullah Ahktar Mansour sem drepinn var í drónaárás Bandaríkjahers um helgina. Akhundzada er guðfræðingur og var eitt sinn yfir dómstóli talibana.

Í yfirlýsingu talibana um nýjan leiðtoga er fráfall Mansour viðurkennt í fyrsta skipti opinberlega. Samkvæmt frétt breska ríkisútvarpsins BBC er lítið vitað um hvaða stefnu samtökin taka með nýjum leiðtoga en sérfræðingar segja að Akhundzada sé óumdeildur innan raða talibana. Töluverður úlfaþytur varð hins vegar þegar Mansour tók við af stofnanda talibana, Mullah Mohammad Omar, í fyrra.

Akhundzada er sagður meiri trúarleiðtogi en herforingi. Flestar tilskipanir, svonefndar fatwa, talibana hafi komið frá honum. Hann er á bilinu 45 – 50 ára gamall, kemur frá Kandahar-héraði og hefur búið mestalla ævi í Afganistan. Sérfræðingar segja að hann hafi náin tengsl við leiðtoga talibana í pakistönsku borginni Quetta.

Frétt BBC 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert