Útlit fyrir að friðarsamkomulag náist í Jemen

Mohammed Ali al-Huthi, leiðtogi Huthi-uppreisnarmanna, situr bak við skothelt gler …
Mohammed Ali al-Huthi, leiðtogi Huthi-uppreisnarmanna, situr bak við skothelt gler við hátíðarhöld sem haldin voru á sunnudag til að fagna því að 26 ár eru frá því að Sanaa, höfuðborg Jemen, var innlimuð í landið á ný. AFP

Sendifulltrúi Sameinuðu þjóðanna (SÞ) tilkynnti í dag að svo virtist sem friðarviðræður jemenskra stjórnvalda og Huthi-uppreisnarmanna séu að skila árangri.  „Við nálgumst almennt samkomulag sem tekur til væntinga beggja aðila,“ sagði í yfirlýsingu frá Ismail Ould Cheikh Ahmed, sendifulltrúa SÞ.

„Viðræðurnar hafa orðið nærgætnari og tillitsamari og færa okkur nær heildstæðu samkomulagi.“

Ould Cheikh Ahmed kynnir framgang friðarviðræðnanna, sem hófust 21. apríl, fyrir Öryggisráði Sameinuðu þjóðanna í New York síðar í dag, en viðræðurnar gengu lengst af treglega og gekk sendinefnd jemensku stjórnarinnar ítrekað út af fundum.

Deiluaðilar hittust síðan aftur á mánudag, nær viku eftir að sendinefnd stjórnvalda sniðgekk síðasta fund þar á undan. Þennan sama dag tilkynnti Abdulmalek al-Mikhlafi, utanríkisráðherra Jemen, að stjórnvöld væru tilbúin að miðla málum svo koma mætti á friði í landinu.

Ould Cheikh Ahmed sagði viðræður gærdagsins hafa snúið að „ýmsum hernaðar- og öryggismálum, m.a. brottflutningi og flutningi hersveita.“  

„Við vinnum nú að því að sigrast á ýmsum hindrunum og taka á sérstökum atriðum tengdum framkvæmdinni,“ sagði hann.  

AFP-fréttastofan hefur eftir vestrænum sendifulltrúa sem þekkir vel til friðarviðræðnanna að raunverulegur árangur hafi náðst.  

„Við erum á þeim stað að báðir aðilar þurfa að taka erfiðar ákvarðanir og miðla málum,“ sagði hann og bætti við að hann væri mjög bjartsýnn um að friðarsamningur gæti náðst.

„Við höfum ekki séð þennan slagkraft í átt að friði sl. eitt og hálft ár [...] Það er búið að útlista vegvísi […] og hann verður að virka.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert