Kæra tilmæli um réttindi transfólks

Íhaldsmenn í Bandaríkjunum óttast aukna viðurkenningu á réttindum transfólks og …
Íhaldsmenn í Bandaríkjunum óttast aukna viðurkenningu á réttindum transfólks og samkynhneigðra. AFP

Ellefu ríki Bandaríkjanna ætla að stefna alríkisstjórninni vegna tilmæla sem Barack Obama forseti gaf út til opinberra skóla um að leyfa transfólki að nota salerni sem samrýmist kynvitund þeirra. Repúblikanar ráða ríkjum í níu af ríkjunum ellefu sem vilja lýsa tilmælin ólögleg.

Tilmælin voru gefin út um miðjan þennan mánuð og byggja á lögum sem banna mismunun vegna kynhneigðar. Þau eru ekki bindandi en skólar sem verða ekki við þeim geta hins vegar lent í málssókn eða misst fjárveitingar frá alríkisstjórninni.

Texas fer nú fyrir hópi ellefu ríkja sem vilja fá tilmælunum hnekkt. Í stefnu sinni saka ríkin alríkisstjórnina um að reyna að endurskrifa lögin með tilskipun framkvæmdarvaldsins. 

Segja stefnuna vera „pólitíska brellu“

Auk Texas standa Alabama, Arizona, Georgía, Louisiana, Maine, Oklahoma, Tennessee, Utah, Vestur-Virginía og Wisconsin að stefnunni. Stefnan beinist að ríkisstjórninni, nokkrum alríkisstofnunum og forstöðumönnum þeirra.

„Stefndu hafa lagt á ráðin um að breyta vinnustöðum og menntastofnunum um allt landið í tilraunastofur fyrir gríðarlega félagslega tilraun, virða að vettugi lýðræðið og vaða yfir skynsama stefnu til verndar börnum og grundvallarréttindum til friðhelgi einkalífs,“ segir í stefnunni.

Borgararéttindasamtökin ACLU segja stefnuna hins vegar rakalausa og hún sé lítið annað en pólitísk brella. Þau segja að Hæstiréttur hafi þegar skorið úr um að ekki sé hægt að kæra tilmæli alríkisstofnana bara vegna þess að menn séu ósammála þeim.

Svonefnt „baðherbergisstríð“ hefur brotist út í Bandaríkjunum í kjölfar þess að þing Norður-Karólínu samþykkti lög sem gera transfólki skylt að nota salerni í samræmi við kyn sem skráð er á fæðingarvottorð þess. Fjöldi fyrirtækja og skemmtikrafta hafa í kjölfarið ákveðið að sniðganga ríkið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert