Minntist fórnarlamba í Hiroshima

Barack Obama Bandaríkjaforseti vottaði fórnarlömbum fyrstu kjarnorkusprengjunnar sem var sprengd í Hiroshima samúð sína í heimsókn sinni til japönsku borgarinnar.

Þetta er í fyrsta sinn sem sitjandi forseti Bandaríkjanna heimsækir borgina. Hann hitti eftirlifendur árásarinnar sem var eins konar endapunktur á síðari heimsstyrjöldinni.

„Fyrir 71 ári féll dauðinn af himnum ofan og heimurinn breyttist,“ sagði Obama um sprengjuna sem „sýndi að mannkynið hefur alla burði til að tortíma sér sjálft“.

Frétt mbl.is: Bandaríkjaforseti í Hiroshima

„Af hverju komum við hingað, til Hiroshima? Við erum að velta fyrir okkur þeim hryllingi sem var leystur úr læðingi fyrir ekki svo löngu síðan. Við erum komin hingað til að syrgja þá sem dóu,“ sagði Obama, sem lagði blóm á minnisvarða um þá sem létust. 

Barack Obama faðmar Shigeaki Mori, einn þeirra sem komst lífs …
Barack Obama faðmar Shigeaki Mori, einn þeirra sem komst lífs af úr kjarnorkuárásinni á Hiroshima. AFP

Það var Harry S. Truman, þáverandi forseti Bandaríkjanna, sem ákvað að varpa kjarnorkusprengjunni á Hiroshima árið 1945. Flugvélin Enola Gay flaug með sprengjuna, sem var kölluð „Litli drengurinn“, og lét hana falla á borgina.

Alls fórust 140 þúsund manns, margir hverjir samstundis í miklum hita sem fylgdi sprengjunni. Aðrir létust af sárum sínum eða í veikindum tengdum geislavirkni á næstu vikum, mánuðum og árum.

Obama ásamt forsætisráðherra Japans við minnisvarða um þá sem fórust …
Obama ásamt forsætisráðherra Japans við minnisvarða um þá sem fórust í árásinni 1945. AFP

Þremur dögum síðar var annarri kjarnorkusprengju varpað á japönsku borgina Nagasaki.

Eins og búist var við bað Obama Japani ekki afsökunar á sprengjunum sem var varpað á Hiroshima og Nagasaki.

„Tæknilegar framfarir án sambærilegra framfara hjá mannfólkinu geta skapað okkur ill örlög. Tæknibyltingin sem leiddi til þess að atómið var klofið krefst einnig siðferðislegrar byltingar,“ sagði forsetinn.

Obama leggur blómsveig á minnisvarðann.
Obama leggur blómsveig á minnisvarðann. AFP

Þrátt fyrir að sumir Japanir hafi kallað eftir yfirlýsingu frá forsetanum, þar sem hann lýsti yfir eftirsjá vegna sprengjanna, tók almenningur honum opnum örmum í heimsókninni og telja margir hana stórt skref fram á við í samskiptum þjóðanna.

Einhverjir telja að Bandaríkjamenn hafi framið stríðsglæpi með því að varpa sprengjunum tveimur vegna þess að almennir borgarar voru skotmörkin. Margir Bandaríkjamenn halda því aftur á móti fram að árásirnar hafi flýtt endalokum blóðugs stríðs og hafi því þegar allt kemur til alls komið í veg fyrir frekara mannfall.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert