Bannað að auglýsa getnaðarvarnir

AFP

Pakistönsk stjórnvöld hafa gefið út tilskipun sem bannar að getnaðarvarnir séu auglýstar í útvarpi og sjónvarpi. Þau segja skýringuna þá að slíkar auglýsingar geti vakið forvitni á meðal „saklausra barna“.

Ekki er talið að bannið muni hafa mikil áhrif, enda er pakistanskt samfélag afar íhaldssamt og auglýsingar sem þessar, um getnaðarvarnir, fátíðar, að sögn breska ríkisútvarpsins.

Á síðasta ári bönnuðu stjórnvöld í landinu fyrirtækinu Josh að auglýsa smokka, en þau sögðu auglýsingarnar siðlausar.

Aðgengi að getnaðarvörnum í landinu er afar takmarkað og minna en gengur og gerist í Asíu, samkvæmt upplýsingum frá Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni. Pakistan er sjötta fjölmennasta ríki heims.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert